Innlent

Vegir víða á óvissustigi

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Færð gæti spillst á vegum síðdegis.
Færð gæti spillst á vegum síðdegis. Vísir/Vilhelm

Vegir á Suðurlandi, Vesturlandi og á Vestfjörðum verða á óvissustigi síðdegis vegna gulrar veðurviðvörunar og geta lokað með stuttum fyrirvara. Líkt og fram hefur komið er spáð suðaustan hríð síðdegis upp úr klukkan 14:00.

Á vef Vegagerðarinnar má sjá að vegurinn um Kjalarnes verður settur á óvissustig vegna veðurs klukkan 14:00 og til 23:00 vegna veðursins. Vegir um Mosfellsheiði, Þrengsli, Hellisheiði og Krýsuvíkurveg verða settir á óvissustig frá klukkan 15:00 og til 23:00 vegna veðursins.

Veðurstofan spáir suðaustan hríð með snjókomu á höfuðborgarsvæðinu, Suðurlandi, Suðausturlandi Vesturlandi og á Vestfjörðum. Veðrið mun hafa í för með sér skafrenning og léleg aksturskilyrði þar sem færð gæti spillst, einkum á fjallvegum.

Veðurviðvörunin er tímasett frá 18:00 til 23:00 á höfuðborgarsvæðinu, 14:00 til 00:00 á Suðurlandi og Faxaflóa. Frá 19:00 til 01:00 á Breiðafirði en frá 20:00 til 02:00 á Vestfjörðum og á Suðausturlandi. Viðvörunin nær einnig til Miðhálendisins frá 15:00 til 03:00.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×