„Ég hef starfað við kennslu og rannsóknir innan skólans um árabil og hef á síðustu sex árum leitt Menntavísindasvið, eitt af fimm fræðasviðum skólans. Ég brenn fyrir málefnum Háskólans í heild og er sannfærð um að öflug sókn á sviði vísinda og háskólamenntunar sé forsenda þess að tryggja framfarir og velferð samfélags okkar og stöðu Íslands á alþjóðavettvangi,“ segir Kolbrún í tilkynningu.
Jón Atli Benediktsson núverandi rektor hyggst ekki fara fram á ný þegar skipunartíma hans lýkur. Magnús Karl Magnússon, læknir og prófessor við Háskóla Íslands, hefur lýst yfir framboði sínu til embættis rektors Háskóla Íslands. Silja Bára Ómarsdóttir, prófessor við stjórnmálafræðideild skólans, hefur sömuleiðis lýst yfir áformum um framboð.
Styrkja stoðir gæðakennslu
Kolbrún segir frá megináherslum sínum í tilkynningunni.
„Trygg fjármögnun Háskólans og stórefldir rannsóknarinnviðir á öllum fræðasviðum verða megináhersluatriði í baráttu minni fyrir styrkingu og þróun Háskólans. Afar mikilvægt er að leiða krafta vísindasamfélagsins saman til þess að tryggja að Háskóli Íslands standist alþjóðlegan samanburð og styðji samfélagið við lausn flókinna áskorana. Hér mun skipta öllu að það takist vel að byggja upp mikilvæga rannsóknarinnviði innan vísindagarða í Vatnsmýrinni. Ég legg áherslu á að þar verði jafnframt til ný þverfagleg rannsóknarmiðja HÍ sem skapa mun spennandi rannsóknartækifæri fyrir öll fræðasvið og framsækinn vettvang fyrir vísindi og samfélagslega nýsköpun.“
Hún leggi áherslu á að styrkja stoðir gæðakennslu og náms í deildum skólans og að auka tækifæri stúdenta til rannsókna, starfsnáms og þátttöku í skapandi og hagnýtum verkefnum.
Akademískt frelsi lykillinn að árangri
„Þá er lykilatriði að stjórnvöld hefji undirbúning að innleiðingu námsstyrkjakerfis til háskólanáms að norrænni fyrirmynd og mun ég leggjast á árarnir með stúdentum í þeirri baráttu. Brýnt er að bæta starfsaðstæður stúdenta og starfsfólks og leita allra leiða til að stuðla að jákvæðu og sveigjanlegu starfsumhverfi og að laun starfsfólks verði samkeppnishæf.“
Hún sé þeirrar skoðunar að tækifærin innan Háskóla Íslands séu fjölmörg og að skólann megi efla og styrkja til frekari sóknar, bæði á sviði vísinda og kennslu.
„Mín bjargfasta trú er sú að akademískt frelsi og samvinna þeirra sem mynda háskólasamfélagið sé lykillinn að árangri. Að því vil ég vinna og býð þess vegna fram starfskrafta mína til að leiða Háskóla Íslands á næstu árum.“