Upp­gjörið, myndir og við­töl: Grinda­vík - Stjarnan 63-65 | Stjörnusigur í Smáranum

Árni Jóhannsson skrifar
Hart barist í leik kvöldsins.
Hart barist í leik kvöldsins. Vísir / Pawel Cieslikiewicz

Stjarnan náði í sigur gegn Grindavík í mjög svo kaflaskiptum en æsispennandi leik. Sóknarleikur beggja liða var ekki upp á marga fiska en á móti var leikurinn jafn og spennandi fram á lokamínútuna. Lokatölur 63-65 í leik sem hefði getað dottið hvoru megin.

Sóknarleikur liðanna var ekki góður lungan úr leiknum og það sást strax í byrjun að hann ætlaði að vera stífur. Úr varð að leikurinn var í jafnvægi mest allan leikinn þar sem hvorugt liðið náði að nýta sér stoppin sín eða þá þegar hitt liðið klikkaði á sínum sóknarleik. Staðan var 10-10 þegar sjö mínútur voru liðnar af leiknum og 13-13 þegar níu mínútur voru liðnar. Þá tók sóknarleikur Stjörnunnar pínu kipp og endaði fyrsti leikhluti í stöðunni 16-20.

Elísabet Ólafsdóttir ein af mörgum sem lögðu lóð á vogarskálarnar.Vísir / Pawel Cieslikiewicz

Svipaða sögu var að segja af öðrum leikhluta en Stjarnan byrjaði betur héldu muninum í fjórum til fimm stigum þangað til annar leikhluti var hálfnaður. Þá tók Grindavík við sér og jafnaði metin í 29-29 þegar um þrjár mínútur voru eftir af fyrri hálfleik, komust yfir og héldu forskotinu í háfleik sem endaði 33-32. Varnarleikurinn var á köflum góður en það er ekki hægt að segja það sama um sóknarleikinn en þegar liðin komust í góð færi undir körfunni vildi boltinn ekki ofan í.

Katarzyna Trzecia gat varla gert meira en hún gerði í kvöld.Vísir / Pawel Cieslikiewicz

Seinni hálfleikur var einnig sveiflukenndur. Grindavík byrjaði betur en Stjarnan kom sér aftur inn í leikinn og komst yfir en hélt ekki út en Grindavík var með þriggja stiga forystu þegar þriðja leikhluta var lokið. Stjarnan kom þá út í fjórða leikhlutann og náðu forystunni en sóknarleikur heimakvenna stífnaði enn meira í upphafi fjórða leikhluta. Staðan var þó jöfn þegar rúmlega fimm mínútur lifðu af leiknum, 58-58. 

Isabella Ósk og Denia áttust við í teignum.Vísir / Pawel Cieslikiewicz

Enn hægðist á stigaskorinu þannig að úr varð hörkuspennandi leikur. Í stöðunni 60-61 þegaru um fjórar mínútur voru eftir meiddist Kolbrún María Ármannsdóttir illa. Viðstaddir héldu að leik hennar væri lokið en eftir að teygt og togað hafði verið á hnéinu hennar þá kom hún inn á og lokaði leiknum. Hún byrjaði á því að stela boltanum og komast í hraðaupphlaup sem skapaði vítaskot sem Denia Davis Stewart gat bætt stigi við. Grindavík komst síðan aftur yfir, 63-62, en Kolbrún Evrópuskrefaði sig í gegnum vörnina hjá Grindavík, skoraði og fór svo yfir og varði skot í stöðunni 63-64. Grindavík gerði sér svo enga greiða í lok leiksins með ákvarðanatöku sinni, Stjarnan bætti við stigi, varðist vel og innbyrði sigur 63-65. Grindavík átti lokasóknina en gaf boltann mjög auðveldlega frá sér án þess að ná skoti.

 Kolbrún Ármannsdóttir að vera skot undir lok leiksins.Vísir / Pawel Cieslikiewicz

Atvik leiksins

Þegar Kolbrún María meiddist, þá héldu margir að hennar leik væri lokið. Heldur betur ekki og dró hún liðið sitt áfram í áttina að sigrinum. Stal boltum og varði skot á ögurstundu og skoraði stigin sem dugðu til.

Kolbrún og Þórey Tea í baráttunni undir lok leiksins.Vísir / Pawel Cieslikiewicz

Stjörnur og skúrkar

Kolbrún María var maður leiksins en Diljá og Denia lögðu sín lóð á vogaskálarnar. Margar komu til í varnarleik liðsins og var þetta liðssigur Stjörnunnar.

Hjá Grindavík voru Katarzyna Trzeciak, Isabella Ósk Sigurðardóttir og Þórey Tea Þorleifsdóttir atkvæðamestar. Aðrir leikmenn liðsins hefðu þurft að koma með meira að borðinu. Frammistaða jar Teu vakti mikla athygli en hún er að grípa gæsina í fjarveru annarra leikmanna.

Þórey Tea Þorleifsdóttir átti flottan leik.Vísir / Pawel Cieslikiewicz

Dómarar

Dómarartríóið átti fína vakt. Að sjálfsögðu eitthvað sem hægt er að setja út á þeirra störf en í heildina ættu þeir ekki að hafa pirrað stuðningsmenn liðanna of mikið.

Viðtöl:

Ólafur: Kolbrún hefur bara svo mikinn vilja

Ólafur Jónas Sigurðsson getur verið stoltur af liðinu sínu.Vísir / Pawel Cieslikiewicz

Hvað gat þjálfari Stjörnunnar, Ólafur Jónas Sigurðsson, skrifað þennan sigur á?

„Allavega ekki fallegan körfubolta. Það var greinilegt að hér voru tvö lið sem vantaði mikið sigur. Þetta var mikið stress hérna undir lokin. Þetta var bara þrautseigja undir lokin sem skilaði þessu. Við virkilega vildum ná í þennan sigur“, sagði Ólafur og var spurður um hæl hvort hann finndi þá ekki til stolts til leikmanna sinna.

„Jú 100%. Ég er rosalega stoltur af mínum leikmönnum. Það komu margar inn á og breyttu smá tempói leiksins sem ég er rosalega ánægður með. Varnarleikurinn var til fyrirmyndar á löngum köflum þó sóknarleikurinn var ekki fallegur en það skipti ekki máli þar sem við vorum fastar fyrir varnarlega.“

Eins og áður segir þá átti Kolbrún María rosalegar lokamínútur á annarri löppinni. Hvað er hægt að segja um leikmanninn?

„Reynd þú að taka hana út af þegar lítið er eftir af leikjum. Hún er bara með svo mikinn vilja til að vinna. Ég vissi það að hún myndi hjálpa okkur á einhvern hátt, við vissum það samt að hún væri á annarri löppinni, sjúkraþjálfarinn gerði test á henni og gaf grænt ljós. Þannig að við tókum sénsinn en rúlluðum henni milli varnar og sóknar.“

Það er hellingur að sögn Ólafs sem liðið hans getur tekið út úr þessum leik.

„Við sýndum hörku hérna í lokin sem að okkur hefur vantað. Það var oft og tíðum að við vorum flatar í tvöföldunum og ýmsu sem við ætluðum að gera í leiknum. Við þurfum að fá þessa grimmd sem við sýndum í lok leiksins í lengri tíma og oftar.“

Stjarnan nálgast með sigrinum efri hluta deildarinnar.

„Það er ekkert að marka deildina. Þetta er bara klessa. Lið þurfa bara að ná að tengja saman tvo leiki í röð og það hefur ekki gerst hjá okkur. Við fáum núna tvo daga, svo er bikarinn og áfram gakk.“

 Þorleifur: Við þurfum að líta inn á við

Þorleifur Ólafsson hefur margt að hugsa um þessa dagana.Vísir / Pawel Cieslikiewicz

Þorleifur Ólafsson þjálfari Grindavíkur sagði í viðtali fyrir leik að það væri alveg möguleiki á því að hann gæti verið ánægður með liðið sitt þó þær myndu tapa. Var það staðan eftir leik?

„Ég var ánægður með þrjá leikhluta í kvöld. Þá var bæting en það var algjört hrun í fjórða og ég er alls ekki sáttur með það. Við endum leikin illa sóknarlega. 65 stig er bara flott og varnarlega erum við góðar en við virðumst bara ekki finna lausnir sóknarlega. Á ég að fela mig bakvið það að okkur vantar tvo mjög góða bakverði. Ég ætla ekki að gera því mér finnst að liðið sem ég er með núna ætti að vinna Stjörnuna. Kolla var frábær hérna á öðrum fæti og skorar mikilvæg stig. Við þurfum að líta inn á við og finna lausnir. Ekki bara ég, þær þurfa að trúa því sem ég er að selja og taka eitt skref í einu sérstaklega sóknarlega.“

Einn af þessum bakvörðum sem Þorleifur talaði um er Alexis Morris, stigahæsti leikmaður liðsins, og var hann spurður hvort það væri langt í land hjá henni.

„Njarðvík næst og ég er að búast við henni þá. Þetta var að verða gott en það kom bakslag í það og nú er verið að vinna í henni. Vonandi á móti Njarðvík. Það er ósk mín.“

Þorleifur var í dágóðan tíma í klefanum áður en hann kom til viðtals og var hann spurður að því hvað hann hafi sagt við liðið.

„Við þurfum að líta inn á við. Ekki bara þær heldur ég og ég bað þær um að líta í eigin barm og hvað þær geta gert til að gera liðið betra. Mér finnst við fínar varnarlega og við höfum einstaklinga sem eru góðar varnarlega, leggja sig fram og halda öðrum leikmönnum á tánum. Við erum að halda liðunum í lágu stigaskori en við þurfum að skora boltanum og við erum alls ekki að gera það nógu vel núna.“

Þjálfarinn var beðinn um reyna að koma auga á það hvar sóknarleikurinn væri að stífna upp.

„Ég held að það sé bara hausinn. Þegar þær fara að klikka þá er farið að ofhugsa hlutina. Það er það sem mér dettur í hug núna en guð veit hvað við getum gert við því.“

Þórey Tea Þorleifsdóttir, dóttir þjálfarans, hefur fengið nóg af mínútum í fjarveru annarra leikmanna og greip hún tækifærið sem hún fékk í kvöld í byrjunarliðinu. Hún skoraði 17 stig og hitti úr fimm af 10 þriggja stiga skotum sínum. Þorleifur var beðinn um að tala aðeins um frammistöðu hennar.

„Hún stóð sig frábærlega. Hefur verið að standa sig vel undanfarið. Hún fékk tækifæri í byrjunarliðinu og verður líklega í byrjunarliðin næst líka.“

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira