Fótbolti

Dregið í riðla fyrir HM fé­lags­liða sem verður sýnt ó­keypis

Sindri Sverrisson skrifar
Erling Haaland og félagar í Manchester City leika á HM félagsliða vegna þess að þeir unnu Meistaradeild Evrópu árið 2023. Sigurlið þriggja síðustu ára í Meistaradeildinni leika á HM.
Erling Haaland og félagar í Manchester City leika á HM félagsliða vegna þess að þeir unnu Meistaradeild Evrópu árið 2023. Sigurlið þriggja síðustu ára í Meistaradeildinni leika á HM. Getty

Dregið verður í hið umdeilda HM félagsliða í fótbolta á morgun, um klukkan 18 að íslenskum tíma, í Miami í Bandaríkjunum. Stórlið á borð við Real Madrid og Manchester City eru með í keppninni.

Mótið hefur verið stækkað til muna og fært til sumars, og munu 32 lið taka þátt næsta sumar. Spilað verður í Bandaríkjunum sem eru einmitt einnig einn þriggja gestgjafa HM landsliða 2026.

FIFA tilkynnti í dag að DAZN hefði tryggt sér sýningarrétt frá mótinu um allan heim, og að allir 63 leikir mótsins yrðu sýndir frítt.

Gagnrýnt hefur verið að bætt sé við enn einu mótinu fyrir bestu fótboltamenn heims, með auknu leikjaálagi, en mótið hefst 15. júní og úrslitaleikurinn er ekki fyrr en 13. júlí.

Hér að neðan má sjá styrkleikaflokkana fyrir dráttinn á morgun og eins og sjá má raðast Evrópuþjóðirnar tólf í tvo efri styrkleikaflokkana.

Dregið verður í átta fjögurra liða riðla og í keppninni komast svo tvö efstu lið hvers riðils áfram í 16-liða úrslit.

Flokkur 1

Manchester City (Eng), Real Madrid (Spá), Bayern München (Þýs), PSG (Fra), Flamengo (Bra), Palmeiras (Bra), River Plate (Arg), Fluminense (Bra).

Flokkur 2

Chelsea (Eng), Dortmund (Þýs), Inter (Íta), Porto (Por), Atlético Madrid (Spá), Benfica (Por), Juventus (Íta), Salzburg (Aus).

Flokkur 3

Al Hilal (Sád), Ulsan (Kór), Al Ahly (Egy), Wydad (Mar), Monterrey (Mex), Club Léon (Mex), Boca Juniors (Arg), Botafogo (Bra).

Flokkur 4

Urawa Red Diamonds (Jap), Al Ain (Sam), Espérance (Tún), Mamelodi Sundowns (Suð), Pachuca (Mex), Seattle Sounders (Ban), Auckland City (Nýj), Inter Miami (Ban).




Fleiri fréttir

Sjá meira


×