Fótbolti

Liðsfélagi Alberts laus af gjör­gæslu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Dodo, leikmaður Fiorentina, hefur hér miklar áhyggjur eftir að Edoardo Bove hneig niður en læknar félagsins huga að leikmanninum.
Dodo, leikmaður Fiorentina, hefur hér miklar áhyggjur eftir að Edoardo Bove hneig niður en læknar félagsins huga að leikmanninum. Getty/Image Photo Agency

Edoardo Bove, miðjumaður Fiorentina, er á réttri leið eftir að hafa hnigið niður í leik ítalska liðsins um síðustu helgi.

Bove hneig niður fyrir framan varamannabekk Fiorentina snemma í leik Fiorentina og Internazionale í Seríu A. Leikurinn var fyrst stöðvaður og seinna aflýst.

Íslenski landsliðsmaðurinn Albert Guðmundsson er leikmaður Fiorentina og var á varamannabekk liðsins þegar atvikið gerðist.

Bove var fluttur í skyndi á sjúkrahús og á gjörgæslu. Þar tókst að koma hjartslætti hans í lag og bjarga lífi hans.

Bove er aðeins 22 ára gamall og á láni hjá Fiorentina frá Roma út þetta tímabil.

Fyrir bikarleik Fiorentina á móti Empoli í gær þá staðfesti Alessandro Ferrari, framkvæmdastjóri liðsins, að Bove hafi verið fluttur af gjörgæslu og inn á á hjartadeild spítalans. ESPN segir frá.

„Edoardo stendur sig vel, hann er að ná sér og við erum ánægð. Við verðum að vera þolinmóð og sýna honum virðingu. Hann fór á milli deilda á sjúkrahúsinu þannig að þetta lítur betur út hjá honum,“ sagði við Mediaset sjónvarpsstöðina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×