Körfubolti

Stórar fréttir úr Þor­láks­höfn: Tomsick snýr aftur

Sindri Sverrisson skrifar
Nikolas Tomsick kannast vel við sig í Þorlákshöfn.
Nikolas Tomsick kannast vel við sig í Þorlákshöfn. vísir/daníel

Þór Þorlákshöfn hefur tryggt sér góðan liðsstyrk því félagið hefur endurheimt körfuboltamanninn öfluga Nikolas Tomsick. Samningur hans við félagið gildir út tímabilið.

Tomsick er Bandaríkjamaður og Króati sem spilaði með var í aðalhlutverki hjá Þór veturinn 2018-19, og skoraði þá að meðaltali 22,8 stig, gaf 7,6 stoðsendingar og tók 3,9 fráköst. 

Hann skilaði litlu síðri tölum hjá Stjörnunni veturinn eftir það og varð bikarmeistari með Garðbæingum, og var svo einnig lykilmaður hjá Tindastóli leiktíðina 2020-21, áður en hann kvaddi Ísland í bili.

Næsti leikur Þórs er við Hött í kvöld, í Bónus-deildinni. Ljóst er að Tomsick er kominn með leikheimild fyrir þann leik en í samtali við Vísi vildi formaður Þórs, Jóhanna M. Hjartardóttir, þó ekki gefa upp hvort það yrði fyrsti leikur Tomsick.

Tomsick, sem er 33 ára gamall, hefur spilað í Kósovó, Tékklandi, Belgíu og nú síðast Hollandi eftir að hann fór frá Íslandi.

Þórsarar eru eitt af liðunum í 5.-8. sæti Bónus-deildarinnar, með átta stig eftir átta leiki, sex stigum á eftir efstu liðum Tindastóls og Stjörnunnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×