Upp­gjörið: Þór Þ. - Höttur 106-84 | Þórsarar af­hentu Hetti þriðja tapið í röð

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Stjarnan - Þór Þorlákshöfn, Bónus deildin.2024-2025
Stjarnan - Þór Þorlákshöfn, Bónus deildin.2024-2025 vísir/Jón Gautur

Þór Þorlákshöfn vann öruggan 106-84 sigur gegn Hetti í níundu umferð Bónus deildar karla. Höttur hefur nú tapað þremur leikjum í röð, eins og Þór hafði gert fyrir þennan leik. 

Höttur í varnarvandræðum í upphafi

Þór var sterkari aðilinn í upphafi leiks og keyrði á gestina af miklum hraða og krafti. Höttur mætti illa til leiks. Sóknarlega var lítið hugmyndaflug, flest stig komu af vítalínunni eða upp úr einstaklingsframtaki Justin Roberts, og varnarlega var engin ákefð eða eldmóður til staðar.

Erfiður fyrsti leikhluti gestanna endaði á því að Þór tók þrjú sóknarfráköst í síðustu sókninni og komst í 29-20 forystu. Við þetta var Viðar Örn, þjálfari Hattar, alls ekki sáttur og lét sína heyra það hátt áður en hann hleypti þeim aftur út á gólf.

Öskrin virkuðu og allt annað í öðrum leikhluta

Öskur hans virkuðu vel og það var allt annað að sjá Hött í öðrum leikhluta. Vörnin hertist og vel tókst að saxa á forskot heimamanna. Eftir að Höttur komst yfir hins vegar, um miðjan annan leikhluta, fór liðið að flækja hlutina sóknarlega og kastaði upp nokkrum skelfilegum skotum.

Þór nýtti tækifærið til að refsa í hraðaupphlaupum og fór með fimm stiga, 53-48, forystu inn í hálfleik.

Þristaregn í þriðja og sigurinn svo gott sem tryggður

Heimamenn settu svo tóninn fyrir það sem koma skyldi strax í fyrstu sókn seinni hálfleiks, þriggja stiga skot. Þau fóru ófá ofan í körfuna hjá Þórsurum og samhliða því fór einhvern veginn allt að ganga betur. Hattarmenn vissu varla hvaðan á sig stóð veðrið, drógust sífellt lengra aftur úr og stemningin sem þeir mynduðu í öðrum leikhluta var algjörlega horfin.

Tæp þrjátíu stig hjá heimamönnum gegn aðeins fimmtán hjá gestunum og staðan orðin 82-63 eftir þriðja leikhluta.

Þessi frábæri þriðji leikhluti Þórsara setti því upp frekar óspennandi fjórða leikhluta. Höttur átti engan ás í erminni og var í raun aldrei nálægt því að hefja einhverja endurkomu.

Þórsarar kláruðu leikinn fagmannlega, héldu áfram að hitta vel og fóru með öruggan 106-84 sigur.

Atvik leiksins

Þegar litið er til baka hafði leikhlé um miðjan annan leikhluta mikil áhrif. Höttur var þá á góðri siglingu og nýbúið að taka forystuna. Þórsarar í smá brekku og þá tók Lárus leikhlé. Gerði einhverjar breytingar en aðallega róaði sína menn bara aðeins niður, þeir misstu síðan aldrei völdin á vellinum eftir það.

Stjörnur og skúrkar

Nikolas Tomsick lék vel í endurkomu sinni til Þórs. Hans fyrsti leikur og honum er greinilega ætlað stórt hlutverk hjá liðinu. Mun reynast mikill liðsstyrkur.

Annars allt Þórsliðið með mjög fína frammistöðu í kvöld, fyrsti leikurinn í vetur sem þeir vinna svona örugglega.

Emil Karel með nánast fullkomna nýtingu og eitt vel varið skot, Jordan Semple frábær á báðum endum vallarins og Ólafur Björn ótrúlega öflugur varnarlega. Svo einhverjir séu nefndir.

Hjá Hetti var ekkert um stjörnur og mikið um skúrka. Margir sem voru ekki að leggja á sig fyrir liðið. Slakur og orkulaus varnarleikur er svona það helsta sem sást frá þeim.

Stemning og umgjörð

Stemningin góð enda um að ræða fyrsta sigur liðsins í dágóða stund. Skemmtilegt þegar þristaregnið hófst í þriðja leikhluta, mikil orka í mannskapnum þá. Mæting hins vegar ekki með góðu móti, fremur fámennt í húsinu.

Dómarar

Ekki mikið út á þeirra frammistöðu að setja því þó línan hafi verið dregin heldur aumt, þá héldu þeir sig við hana. Töluvert flautað en það fór í báðar áttir. Engin stór ákvörðun sem situr eftir.

Viðtöl

Viðar Örn: Liðið þarf að slípa sig betur saman og allir leikmenn þurfa að stíga upp

„Slakur varnarleikur og kraftleysi, við erum ekki að ná að framkvæma það sem við leggjum upp með. Þá fer þetta svona,“ sagði ósáttur Viðar Örn Hafsteinsson, þjálfari Hattar, eftir leik.

Hans menn voru samt ekki svoleiðis allan tímann. Liðið átti gott áhlaup í öðrum leikhluta, og tók meira að segja forystuna á einum tímapunkti, en hélt því ekki lengi áfram. Hvers vegna tekst ekki að spila vel í meira en tíu mínútur í kvöld?

„Við erum bara óstöðugir ennþá,“ taldi Viðar vera ástæðuna og hann sagðist ekki vera með lausnirnar á því „bara einn tveir og tíu“. Þetta væri ekki svona ef hann væri með lausnirnar.

„Við þurfum bara að slípa okkur saman á æfingum og koma okkur á sömu blaðsíðu. Ná fleiri endurtekningum á því sem við ætlum að gera og láta þetta ganga meira smurt. Við gerum mistök inn á milli og erum bara óeinbeittir, það er vandamálið.“

Þetta var annar leikurinn sem Höttur spilar með nýju leikmennina Justin Roberts og Gedeon Dimoke en Viðar sagðist ekki hafa séð mikla framför á þeim eða liðinu frá því í síðasta leik.

En eru einhverjir leikmenn sem þér finnst þurfa að stíga meira upp fyrir liðið?

„Nei. Allir bara. Ekki vera að leita að einhverjum helvítis fyrirsögnum og spurðu almennilegra spurninga.“

Hvað þurfið þið að gera til að rétta úr kútnum?

„Sama og ég sagði áðan. Halda áfram að æfa, ná fleiri endurtekningum á því sem við þurfum að lagfæra þannig að við verðum smurðari og meiri maskína. Við erum góðir en droppum bara of djúpt á milli, þurfum bara að ná stöðugleika“ sagði Viðar að lokum.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira