Körfubolti

„Lið með hæfi­leikana til að spila í úr­slita­keppni“

Smári Jökull Jónsson skrifar
Borche Ilievski segir sínum mönnum til en hann er nýlega tekinn við ÍR á nýjan leik.
Borche Ilievski segir sínum mönnum til en hann er nýlega tekinn við ÍR á nýjan leik. Vísir/Anton Brink

Borche Ilievski fagnaði vel og innilega eftir sigur ÍR á KR í kvöld. Þetta er þriðji sigur ÍR í röð og annar sigurinn eftir að Borche tók við stjórn ÍR-liðsins. 

„Við vitum að þetta er barátta upp á líf og dauða hjá okkur og að við þurfum að gefa meira en 100% í hvern leik til að vinna. Ég held að leikmennirnir mínir viti það og nálgist verkefnið vel,“ sagði Borche í samtali við Vísi eftir leik.

Þetta var þriðji sigur ÍR í röð í Bónus-deildinni og annar sigurinn eftir að Borche tók við stjórn liðsins af Ísaki Mána Wium.

„Það er ennþá mikið sem við þurfum að vinna með. Við munum eflaust nýta jólafríið vel en þangað til eigum við tvo mikilvæga leiki gegn Hetti og Haukum á útivelli. Þetta verða bardagar og svo tökum við seinni hluta tímabilsins.“

Borche var ánægður með framlag Matej Kavas í kvöld sem skoraði 32 stig og þar af átta þriggja stiga körfur.

„Hann var ótrúlegur og hann er að taka vel við sér. Matej er venjulega frekar hljóðlátur en ég sé hvaða ástríðu hann hefur fyrir því að vinna leiki. Allir okkar strákar eru að finna sín hlutverk í liðinu. Við erum enn að vinna með róteringu og Björgvin [Hafþór Ríkharðsson] spilaði ekki mikið í fyrri hálfleik í dag og þriggja stiga karfan hans í lokin var mjög mikilvæg. Það var líka sigurkarfa. Allar körfur skipta máli en þessi var mjög mikilvæg.“

Borche var líflegur á hliðarlínunni að vanda.Vísir/Anton Brink

Eftir sigurinn í kvöld er ÍR komið úr fallsæti í fyrsta sinn á tímabilinu. Borche ætlar sér meira en það. 

„Við þurfum að halda áfram, við erum enn á hættulegum stað. Við ætlum ekki að stefna á að halda sætinu í deildinni því mér finnst þetta lið vera með hæfileikana til að spila í úrslitakeppninni. Við þurfum að koma okkur af hættusvæðinu, minnka pressuna á okkur og þá förum við að spila enn betur.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×