Körfubolti

„Þetta er á­stæðan fyrir því að maður er í þessu“

Stefán Marteinn Ólafsson skrifar
Rúnar Ingi Erlingsson tók við karlaliði Njarðvíkur fyrir tímabilið.
Rúnar Ingi Erlingsson tók við karlaliði Njarðvíkur fyrir tímabilið. vísir/diego

Njarðvík vann gríðarlega sterkan og góðan 94-87 heimasigur gegn Grindavík í kvöld þegar liðin mættust í IceMar-höllinni í níundu umferð Bónus deild karla í kvöld. Þjálfari liðsins var sáttur í leikslok.

„Ég er búin að vera horfa á körfubolta frá því ég var þriggja ára gamall og ég veit ekki hversu oft Grindavík hefur verið að koma með svona fjórða leikhluta endurkomu. Ég sé bara fyrir mér Pál Axel, Gulla Eyjólfs og einhverjar kempur vera að raða niður þristum þegar kemur að fjórða leikhluta. Við vissum að það kæmi og ekki gott að missa Shabazz útaf en bara ekkert smá stoltur af mínum mönnum,“ sagði Rúnar Ingi Erlingsson, þjálfari Njarðvíkur, eftir sigurinn í kvöld.

Það hefur verið nefnt áður að andlega hliðin og „hausinn“ hafi átt það til að vera til vandræða í liði Njarðvíkur og má því segja að stórt skref hafi verið tekið með sigrinum í kvöld.

„Ég er búin að punda svolítið á tvo leikmenn hérna eftir ÍR leikinn þar sem að þeir misstu bara trú á sínum hæfileikum í seinni hálfleik, það eru Mario Matasovic og Veigar Páll. Þeir eiga hérna stærstu körfuna, þeir stigu upp þegar á þurfti og ég er bara ógeðslega ánægður með þá,“ sagði Rúnar Ingi.

„Munurinn er hvort að við ætlum að vera beygðir og brotnir útaf því að þeir eru að fá trú á þessu eða hvort að við ætlum að svara þessu og trúa því að við ætlum að sækja tvö stig á heimavelli og við gerðum það.“

Grindavík náði að minnka muninn niður í eitt stig undir lok leiks og voru með boltann í sínum höndum. Rúnar Ingi viðurkennir að það hafi farið um sig þá.

„Já, ég væri að ljúga af þér annars. Þetta er ástæðan fyrir því að maður er í þessu. Ég er alveg rennandi sveittur og þetta var bara geggjaður körfuboltaleikur og ekkert smá gaman að sjá svona marga í nýja húsinu okkar, finna orkuna og stemninguna. Við spiluðum frábæran varnarleik á löngum köflum í dag og við náðum að treysta á það hérna í lokin með góðu stoppi og svöruðum með góðu skoti af endalínunni. Það var nóg til að sækja sigur og fráköstuðum við líka undir lokin.“

Þrátt fyrir að Grindvíkingar hefðu hæðina á Njarðvík þá voru það heimamenn sem tóku frákastabaráttuna.

„Við erum með eitt besta frákastalið í deildinni og höfum verið það. Ég var brjálaður með svona litla brauðmola í fyrri hálfleiknum því við vorum að spila frábæra vörn. Vorum að gefa sjö stig eftir sóknarfráköst í stað þess að klára varnarstöðuna. Ég er með alvöru turna inni í teig og svo er frákast frá Isiah [Coddon] þar sem hann er kominn upp á fjórðu hæð og þetta var bara virkilega góð liðs frammistaða.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×