Handbolti

Haukar mæta liði sem er á ó­kunnum slóðum

Sindri Sverrisson skrifar
Ásgeir Örn Hallgrímsson og hans menn eru á leið til Slóveníu í febrúar.
Ásgeir Örn Hallgrímsson og hans menn eru á leið til Slóveníu í febrúar. vísir/Anton

Haukar eru komnir í 16-liða úrslit EHF-keppninnar í handbolta og í dag kom í ljós að næsti andstæðingur þeirra verður slóvenska liðið RK Jeruzalem Ormoz.

Haukar voru í efri styrkleikaflokki fyrir dráttinn í dag, eins og til að mynda Olympiacos, liðið sem Valur vann í úrslitaeinvígi keppninnar síðastas vor. Þeir hefðu getað lent á móti til að mynda Drammen frá Noregi eða AEK Aþenu en fengu í staðinn Ormoz sem situr í 10. sæti af tólf liðum slóvensku úrvalsdeildarinnar.

Slóvenarnir slógu út eistneska liðið Mistra í síðustu umferð EHF-keppninnar, og eru í fyrsta sinn komnir í 16-liða úrslit. Þeir unnu báða leikina í einvígi liðanna, 35-26 og 34-30, eða samtals með 13 marka mun.

Haukar eru komnir í 16-liða úrslitin eftir að hafa skellt liði Kur í Aserbaídsjan. Haukar seldu heimaleik sinn og léku báða leikina í Aserbaídsjan, en unnu 30-25 og 38-27, eða með samtals 16 marka mun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×