Handbolti

Guð­mundur skákaði Arnóri

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Strákarnir hans Guðmundar Guðmundssonar komust aftur á sigurbraut í dag.
Strákarnir hans Guðmundar Guðmundssonar komust aftur á sigurbraut í dag. epa/Szymon Labinski

Eftir tvö töp í röð vann Fredericia sigur á Team Tvis Holstebro, 31-24, í dönsku úrvalsdeildinni í handbolta í dag. Í leiknum áttust lið íslensku þjálfaranna Guðmundar Guðmundssonar og Arnórs Atlasonar við.

Fredericia er í 3. sæti deildarinnar með nítján stig, fjórum stigum á eftir GOG og Álaborg sem verma tvö efstu sætin. Holstebro er í 7. sæti með fimmtán stig.

Einar Þorsteinn Ólafsson var ekki á meðal markaskorara hjá Fredericia en Arnór Viðarsson var ekki í leikmannahópi liðsins.

Íslendingalið Ribe-Esbjerg tapaði sínum sjötta leik í röð þegar það laut í lægra haldi fyrir Álaborg, 37-39. Ribe-Esbjerg hefur aðeins unnið einn leik á tímabilinu og er í þrettánda og næstneðsta sæti deildarinnar með einungis þrjú stig.

Elvar Ásgeirsson skoraði þrjú mörk og gaf tvær stoðsendingar fyrir Ribe-Esbjerg. Ágúst Elí Björgvinsson varði tíu skot í marki liðsins (25,6 prósent).

Kristján Örn Kristjánsson skoraði eitt mark úr sex skotum þegar Skanderborg steinlá fyrir Mors-Thy, 35-21. Staðan í hálfleik var jöfn en Mors-Thy vann seinni hálfleikinn, 23-9. 

Skanderborg er í 6. sæti deildarinnar með sextán stig. Fyrir viðureignina í dag hafði liðið unnið fjóra leiki í röð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×