Körfubolti

Fjórar fengu enga hvíld í bikarsigri Ár­manns gegn Aþenu

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Jónina Þórdís Karlsdóttir var ein af þeim fjórum sem spilaði fjörutíu mínútur.
Jónina Þórdís Karlsdóttir var ein af þeim fjórum sem spilaði fjörutíu mínútur. ármann

Úrvalsdeildarliðið Aþena tapaði 68-72 á heimavelli gegn fyrstu deildar liði Ármanns í sextán liða úrslitum VÍS bikars kvenna. Fjórir leikmenn Ármanns spiluðu allar fjörutíu mínúturnar.

Ármann er með fullt hús stiga í efsta sæti fyrstu deildarinnar, sem Aþena komst upp úr á síðasta tímabili. Aþena er í sjöunda sæti Bónus deildarinnar með þrjá sigra í níu leikjum.

Ármann byrjaði sterkt og tók forystu í fyrsta leikhluta sem liðið lét ekki af hendi fyrr en í fjórða leikhluta. Aþena hafði misst gestina á köflum nokkuð langt frá sér en barðist til baka og komst stigi yfir, 65-64, þegar tæpar fimm mínútur voru eftir.

Á endasprettinum var Ármann hins vegar sterkari aðilinn, Aþena skoraði ekki aftur fyrr en í síðustu sókn leiksins. Ármann hampaði 68-72 sigri og heldur áfram í 8-liða úrslit bikarsins.

Fjórar sem spiluðu allan leikinn en þrjár tóku engan þátt

Jónína Þórdís Karlsdóttir, Birgit Ósk Snorradóttir, Carlotta Ellenrieder og Alarie Mayze spiluðu allar allan leikinn, heilar fjörutíu mínútur. Stigadreifingin þeirra á milli var mjög jöfn, Alarie stigahæst með 19 stig, hinar með 14, 15 og 16 stig.

Þóra Birna Ingvarsdóttir var með þeim í byrjunarliðinu en þurfti að víkja mjög snemma af velli vegna meiðsla. Brynja Benediktsdóttir tók við af henni og spilaði mest allan leikinn en fékk samtals sjö mínútna hvíld þegar Ísabella Lena Borgarsdóttir steig á gólfið. Þrír leikmenn Ármanns tóku engan þátt í leiknum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×