Innlent

Fjöl­nota í­þrótta­hús byggt í Borgar­nesi

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
Svona mun nýja húsið líta út í Borgarnesi þar sem það verður staðsett á íþróttavallasvæðinu í bæjarfélaginu.
Svona mun nýja húsið líta út í Borgarnesi þar sem það verður staðsett á íþróttavallasvæðinu í bæjarfélaginu. Magnús Hlynur Hreiðarsson

Mikil eftirvænting er hjá íbúum Borgarbyggðar vegna nýs fjölnota íþróttahúss, sem á að fara að byggja í Borgarnesi. Húsið verður fyrst og fremst knatthús og mun kosta tæplega tvo milljarða króna. Ístak byggir.

Tilboð í nýja fjölnota íþróttahúsið hafa verið opnuð og átti Ístak lægsta tilboðið, sem hljóðar upp á 1.754 milljónir króna , sem er 95% af kostnaðaráætlun verksins, sem var 1.840 milljónir króna. Nýja húsið verður byggt á íþróttasvæðinu í Borgarnesi þar sem sundlaugin og íþróttahúsið er, og hefjast framkvæmdir fljótlega á nýju ári.

Stefán Broddi Guðjónsson er sveitarstjóri Borgarbyggðar.

„Um er að ræða knatthús, fjölnotaíþróttahús. Þetta verður svokallað hálft hús og við erum að sjá fyrir okkur að það verði bara vel einangrað og upphitað og mun væntanlega verða heilmikil lyftistöng fyrir íþrótta- og æskulýðsstarfið hjá okkur. Það er heilmikil tilhlökkun fyrir húsinu,“ segir Stefán Broddi og bætir við.

„Þetta hefur auðvitað verið í umræðunni mjög lengi, uppbygging íþróttamannvirkja og við finnum það líka að í rauninni síðustu ár hefur vilji bæjarbúa og íbúa sveitarfélagsins staðið til þess að efla uppbyggingu íþróttamannvirkja og það er verið að bregðast við því.“

Stefán Broddi Guðjónsson, sem er sveitarstjóri Borgarbyggðar. Hann segir mikla tilhlökkun fyrir nýja húsinu í samfélaginu.Aðsend

Stefnt er á að taka nýja fjölnota íþróttahúsið í notkun seinni hluta ársins 2026.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×