Innlent

Kærastinn fær á­heyrn í Menningarnæturmálinu

Jón Þór Stefánsson skrifar
Málið varðar stunguárás á Skúlagötu í Reykjavík á Menningarnótt.
Málið varðar stunguárás á Skúlagötu í Reykjavík á Menningarnótt. Vísir

Héraðsdómur Reykjavíkur þarf að taka fyrir skaðabótakröfu pilts í Menningarnæturmálinu svokallaða. Héraðsdómur hafði áður vísað kröfunni frá dómi, en Landsréttur hefur vísað málinu aftur í hérað.

Pilturinn sem um ræður er ekki brotaþoli í málinu. Líkt og greint hefur verið frá er sextán ára drengur ákærður fyrir að stinga hina sautján ára gömlu Bryndísi Klöru Birgisdóttur til bana, og fyrir tvær tilraunir til manndráps þar að auki, en honum er gefið að sök að stinga tvö önnur ungmenni í sömu árás við Skúlagötu á Menningarnótt.

Pilturinn var með þeim þremur sem lentu í meintri árás í bíl, og í úrskurði Landsréttar í málinu kemur fram að hann hafi verið kærasti hinnar látnu og bróðir annars þeirra sem var stunginn.

Hann vildi fá skipaðan réttargæslumann, en því var hafnað í héraði þar sem hann er ekki brotaþoli. Hann vildi líka fá að leggja fram bótakröfu. 

Í úrskurði héraðsdóms segir að árásin sem málið varðar hafi verið til þess fallin að valda honum andlegum miska, en vegna þess að hann sé ekki brotaþoli verði hún ekki höfð uppi í málinu.

Landsréttur hins vegar sendi kröfuna aftur í hérað þar sem einkaréttarkröfur þurfa ekki að vera bundnar við brotaþola. Þá væru ekki aðrir annmarkar á henni til þess að vísa henni frá. 

Landsréttur var hins vegar sammála héraðsdómi um að pilturinn ætti ekki rétt á réttargæslumanni.

Fréttin hefur verið uppfærð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×