Handbolti

FH og Valur fóru bæði í átta liða úr­slitin

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jóhannes Berg Andrason var öflugur í leiknum á Selfossi í kvöld
Jóhannes Berg Andrason var öflugur í leiknum á Selfossi í kvöld Vísir / Hulda Margrét

FH og Valur urðu í kvöld tvö síðustu liðin til að tryggja sér sæti í átta liða úrslit Powerade bikars karla í handbolta.

FH vann Selfoss með tíu marka mun, 35-25 og Valur vann Gróttu með þriggja marka mun, 29-26.

Áður höfðu ÍR, Stjarnan, Fram, ÍBV, KA og Afturelding tryggt sér sæti í átta liða úrslitunum í nóvember en leikjum Vals og FH var frestað vegna þátttöku liðanna í Evrópudeildinni.

FH og Valur vita þegar hvaða mótherjar bíða liðanna í næstu umferð bikarsins. Valur er á útivelli á móti Fram en FH á útivelli á móti ÍBV en leikirnir í átta liða úrslitunum frá fram 17. og 18. desember næstkomandi.

FH-ingar unnu sannfærandi sigur á 1. deildarliði Selfoss á Selfossi, 35-25. Jóhannes Berg Andrason skoraði átta mörk fyrir FH og Birgir Már Birgisson var með sex mörk.

Það var mun meiri spenna í hinum leiknum en Valsmenn voru sterkari á endanum og unnu þriggja marka sigur.

Grótta var fjórum mörkum yfir í hálfleik, 17-13, en heimamenn byrjuðu seinni hálfleik af krafti og voru komnir yfir í 23-22, um miðjan hálfleikinn. Björgvin Páll Gústavsson skoraði þá yfir allan völlinn. Valsmenn voru síðan sterkari.

Magnús Óli Magnússon var markahæstur hjá Val með níu mörk og Allan Norðberg skoraði fimm mörk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×