Handbolti

Heimsmeistararnir unnu heimakonur og sendu þær í leik á móti Noregi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Pauletta Foppa skoraði fimm mörk fyrir franska liðið í kvöld en Frakkarnir hafa unnið alla leiki sína á mótinu til þessa.
Pauletta Foppa skoraði fimm mörk fyrir franska liðið í kvöld en Frakkarnir hafa unnið alla leiki sína á mótinu til þessa. Getty/David Damnjanovic

Heimsmeistarar Frakka og Ólympíumeistarar Norðmanna mætast ekki fyrr en í fyrsta lagi í úrslitaleiknum á Evrópumóti kvenna í handbolta.

Þetta er ljóst eftir að Frakkar unnu þriggja marka sigur á Ungverjum, 30-27, í óopinberum úrslitaleik um efsta sætið í milliriðli eitt.

Bæði Frakkland og heimaliðið Ungvejarland voru búin að vinna alla leiki sína til þessa í mótinu og höfðu því þegar tryggt sig áfram í leikina um verðlaun.

Norðmenn eru búnir að tryggja sér sigurinn í milliriðli tvö og þær norsku mæta því Ungverjum í undanúrslitaleiknum.

Frakkar mæta annað hvort Danmörku eða Hollandi í sínum undanúrslitaleik en þau lið spila hreinan úrslitaleik um síðasta sætið í undanúrslitin á morgun.

Frakkar skoruðu fjögur fyrstu mörkin í leiknum á móti Ungverjum, komust í 5-1 og 10-6 en í hálfleik var staðan orðin jöfn, 13-13.

Þær frönsku skoruðu þrjú fyrstu mörkin í seinni hálfleik og voru með frumkvæðið eftir það.

Það munaði tveimur mörkum, 24-22, á lokakaflanum en þá slitu þær frönsku sig endalega frá ungverska liðinu.

Markaskor franska liðsins dreifðist mikið eins og vanalega en Pauletta Foppa og Chloé Valentini voru markahæstar með fimm mörk.

Pólverjar unnu 29-24 sigur á Rúmenum í fyrsta leik dagsins en bæði liðin eru með tvö stig eins og Svíþjóð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×