Fótbolti

Svein­dís með fernu í Meistara­deildinni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sveindís Jane Jónsdóttir fagnar hér einu marka sinna í kvöld en þetta voru fyrstu mörkin hennar í Meistaradeildinni á tímabilinu.
Sveindís Jane Jónsdóttir fagnar hér einu marka sinna í kvöld en þetta voru fyrstu mörkin hennar í Meistaradeildinni á tímabilinu. Getty/Inaki Esnaola

Sveindís Jane Jónsdóttir átti frábæra innkomu sem varamaður í kvöld og skoraði fernu í mjög mikilvægum sigri Wolfsburg í Meistaradeild kvenna í fótbolta

Wolfsburg vann 6-1 heimasigur á ítalska liðinu Roma en þær ítölsku höfðu unnið fyrri leik liðanna.

Eftir þennan mikilvæga sigur þá er Wolfsburg með níu stig í öðru sætinu, þremur stigum á undan Roma. Lyon vann 6-0 sigur á Galatasaray í kvöld og er með fullt hús í toppsætinu.

Alexandra Popp kom Wolfsburg í 1-0 á sjöttu mínútu en Valentina Giacinti jafnaði metin á 56. mínútu.

Lineth Beerensteyn skoraði eftir stoðsendingu Popp á 65. mínútu en fór svo af velli fyrir okkar konu.

Sveindís Jane þurfti að sætta sig við að byrja á bekknum en kom inn á völlinn á 66. mínútu. Innan við tveimur mínútum síðar var hún búin að kom Wolfsburg í 3-1.

Áður hafði hún lagt upp færi fyrir Popp og það er þvi óhætt að segja að hún hafi komið með miklum krafti inn í leikinn.

Sveindís skoraði síðan fjórða markið á 85. mínútu eftir stoðsendingu frá Svenju Huth.

Íslenska landsliðskonan var ekki hætt því hún skoraði sitt þriðja mark á 89. mínútu og nú eftir stoðsendingu frá Rebecku Blomqvist.

Fernan var síðan innsigluð í uppbótatíma leiksins eftir sendingu frá Vivien Endemann. Þvílík frammistaða hjá okkar konu. Fjögur mörk á aðeins 34 mínútum og hún skapaði einnig þrjú færi fyrir liðsfélaga sína.

Þetta voru fyrstu mörk Sveindísar í Meistaradeildinni á þessu tímabili og hennar fyrstu mörk í Meistaradeildinni síðan í apríl 2023.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×