Fótbolti

„Aldrei séð Guardiola-lið svona lé­legt“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Pep Guardiola klórar sér eflaust oft í kollinum þessa dagana. Stundum klórar hann sig meira að segja til blóðs.
Pep Guardiola klórar sér eflaust oft í kollinum þessa dagana. Stundum klórar hann sig meira að segja til blóðs. getty/Jonathan Moscrop

Ekkert gengur hjá Englandsmeisturum Manchester City og Rio Ferdinand segist aldrei hafa séð jafn lélegt lið undir stjórn Peps Guardiola.

City tapaði fyrir Juventus í Meistaradeild Evrópu í gær, 2-0. Þetta var sjöunda tap liðsins í síðustu tíu leikjum. City hefur dregist langt aftur úr í kapphlaupinu um Englandsmeistaratitilinn og er í slæmum málum í Meistaradeildinni.

Ferdinand, sem lék lengi með Manchester United, var sérfræðingur á TNT um leik Juventus og City í gær. Hann segist vera hissa á slæmu gengi City-manna.

„Ég held að þetta komi okkur enn á óvart, miðað við það sem þeir hafa gert síðustu árin. Þeir hafa verið ógnarsterkur og unnið ensku úrvalsdeildina fjögur ár í röð,“ sagði Ferdinand.

„En við höfum ekki séð Guardiola lið vera svona lélegt. Hann verður að finna leið til að snúa genginu við og fylla liðið sjálfstrausti. Það er mikil pressa á þeim.“

City hefur aðeins unnið einn af síðustu tíu leikjum sínum í öllum keppnum, gert tvö jafntefli og tapað sjö. Frá því í byrjun nóvember hefur ekkert lið í fimm stærstu deildum Evrópu fengið á sig fleiri mörk, eða tuttugu. Í síðustu þremur Meistaradeildarleikjum hefur City fengið á sig níu mörk.

Næsti leikur City er gegn erkifjendunum í Manchester United á sunnudaginn. United er í 13. sæti ensku úrvalsdeildarinnar en City í því fjórða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×