Erlent

Búlgarar og Rúmenar fá inn­göngu í Schengen

Samúel Karl Ólason skrifar
Um 420 milljónir manna búa á Schengen-svæðinu.
Um 420 milljónir manna búa á Schengen-svæðinu. Getty

Innanríkisráðherrar Evrópusambandsins hafa samþykkt að gera Búlgaríu og Rúmeníu aðila að Schengen-svæðinu. Þetta felur í sér að þann 1. janúar verður mun auðveldara fyrir fólk í Búlgaríu og Rúmeníu að ferðast til annarra ríkja í Schengen.

Schengen-samstarfið hófst milli Frakklands, Þýskalands, Belgíu, Hollands og Lúxemborg árið 1985. Íslend gekk inn í Schengen-samstarfið árið 1996, ásamt Danmörku, Finnlandi, Noregi og Svíþjóð. Um 420 milljónir manna búa á Schengen-svæðinu svokallaða.

Rúmenía og Búlgaría hafa verið í Evrópusambandinu frá 2007 og sóttu um aðild að Schengen árið 2010. Samkvæmt frétt DW hafa hins vegar ráðamenn nokkurra ríkja Evrópu sett sig gegn aðild ríkjanna í gegnum árin.

Breytingar höfðu orðið á fyrirkomulagi varðandi landamæraeftirlit þessara ríkja í mars, þar sem reglur Schengen voru í raun látnar ná yfir fólk sem kom til landanna með flugvélum eða skipum. Það náði ekki yfir fólk sem kom fótgangandi eða akandi inn í Búlgaríu og Rúmeníu.

Austurríki var meðal þeirra ríkja þar sem ráðamenn höfðu sett sig gegn aðild Búlgaríu og Rúmeníu og að hluta til vegna þess að þeir sögðu Búlgara ekki hafa nægilega öflugt landamæraeftirlit varðandi farandi- og flóttafólk sem kæmist ólöglega inn í landið.

Fyrir samþykktina í dag höfðu ráðamenn þar þó samþykkt að beita ekki neitunarvaldi að þessu sinni þar sem Búlgarar hafa samþykkt að efla landamæragæslu sína á landamærum Búlgaríu og Tyrklands.

AP fréttaveitan hefur eftir Marcel Ciolacu, forsætisráðherra Rúmeníu, að um mikla hagsmuni fyrir Rúmeni sé um að ræða. Þetta muni gera þeim milljónum Rúmena sem búa og vinna á Schengen-svæðinu auðveldara að ferðast aftur heim.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×