Körfubolti

Loka­þáttur Kanans: Hetjan á Króknum og flug­um­ferðar­stjórinn

Sindri Sverrisson skrifar
Keyshawn Woods er heimsóttur á Sauðárkrók í lokaþætti Kanans.
Keyshawn Woods er heimsóttur á Sauðárkrók í lokaþætti Kanans. Stöð 2 Sport

Lokaþáttur Kanans fer í loftið á Stöð 2 og Stöð 2 Sport í kvöld. Meðal viðmælenda í kvöld er Keyshawn Woods, fyrrum leikmaður Tindastóls sem lék með liðinu þegar yfir 60 ára bið Skagfirðinga eftir Íslandsmeistaratitlinum lauk.

Woods, sem lék í tvö ár með Tindastóli, var sóttur heim á Sauðárkrók síðasta vetur og þátturinn í kvöld gefur áhugaverða innsýn inn í daglegt líf atvinnumanns í körfubolta hér á landi.

Woods var lykilmaður í rafmögnuðu úrslitaeingívi gegn Val vorið 2023 en í oddaviðureigninni á Hlíðarenda skoraði kappinn 33 stig og var með leikinn í höndum sér á vítalínunni þegar klukkan var við það að renna út. Woods rifjar upp leikinn og stemninguna í kringum lið Tindastóls í þætti kvöldsins. Brot úr þættinum má sjá hér að neðan.

Klippa: Hetja Tindastóls í lokaþætti Kanans

Ásamt Woods verða til viðtals tveir þekktir kappar sem báðir léku fyrir landslið Íslands og háðu marga hildina á vellinum enda þá burðarásar í liðum erkifjendanna Keflavíkur og Njarðvíkur. 

Damon Johnson, fyrrum leikmaður Keflavíkur og ÍA, var heimsóttur í heimaborg sína í Tennessee og Brenton Birmingham, fyrrum leikmaður Njarðvíkur og Grindavíkur var meðal annars tekinn tali í flugturninum á Keflavíkurflugvelli þar sem hann starfar í dag sem flugumferðarstjóri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×