Erlent

Kæra for­seta Suður-Kóreu fyrir af­glöp í em­bætti

Lovísa Arnardóttir skrifar
Almenningur kallar eftir því að forsetinn verði handtekinn.
Almenningur kallar eftir því að forsetinn verði handtekinn. Vísir/EPA

Þingið í Suður-Kóreu hefur samþykkt að ákæra forseta landsins Yoon Suk Yeol fyrir embættisafglöp. Þingið greiddi atkvæði um það í morgun og var tillagan samþykkt með miklum meirihluta, 204 gegn 85. 

Forsætisráðherra landsins, Han Duck-soo, mun tímabundið taka við sem forseti. Samkvæmt frétt AP um málið hefur stjórnarskrárdómstóll landsins 180 daga til að ákveða hvort að honum verði vikið úr embætti eða ekki. Mikið uppnám hefur verið í samfélaginu frá því að Yoon setti fyrirvaralaust herlög á landið þann 3. desember.

Tugir þúsunda hafa mótmælt á götum Seúl síðustu daga, og í morgun, og þegar ljóst var að forsetinn yrði kærður brutust út mikil fagnaðarlæti.

Vika er síðan atkvæðagreiðsla um landráð var afgreidd á þinginu í fyrsta sinn en þá kom meirihluti stjórnarþingmanna sér hjá því að greiða atkvæði. Opinberum mótmælum gegn Yoon hefur fjölgað síðan þá og vinsældir hans hrakað.

Í frétt AP segir að tugir þúsunda mótmæli nú þrátt fyrir mikinn kulda í Seúl og hafi gert það síðustu tvær vikurnar. Þau kalla eftir því að honum verði vikið úr embætti og hann handtekinn. Þúsundir stuðningsmanna hans hafa einnig komið saman í Seúl en þau eru ekki eins mörg.

Tugir þúsunda mótmæla ákvörðun forsetans og segja hann hafa framið landráð.Vísir/EPA

Herlögin voru aðeins í gildi í um sex klukkustundir en höfðu ekki verið sett á í um fjóra áratugi. Ákvörðun Yoon hefur haft víðtæk áhrif pólitískt og á efnahagslífið. Þingið greiddi atkvæði um að snúa ákvörðuninni við samdægurs þannig hann neyddist til að gera það. 

Yoon hefur verið sakaður um uppreisn og hafa bent á að samkvæmt lögum má forseti landsins aðeins setja á herlög á stríðstímum eða í svipuðu neyðarástandi. Í tillögunni sem tekin var fyrir á þinginu í dag kom fram að hann hafi „framkvæmd uppreisn sem trufli friðinn í Lýðveldinu Kóreu með því að setja á svið röð óeirða“. 

Fólk hefur mótmælt daglega síðustu tæpar tvær vikurnar.Vísir/EPA

Þá er það einnig gagnrýnt að hann hafi notað lögreglu og her í aðgerðum sínum. Yoon hefur mótmælt ásökunum en á meðan hann er til rannsóknar má hann ekki yfirgefa landið.

Fréttin hefur verið uppfærð eftir að tillagan var afgreidd á þinginu í Suður-Kóreu. 


Tengdar fréttir

Forsetinn verður ekki ákærður

Forseti Suður-Kóreu verður ekki ákærður vegna neyðarherlaga sem hann setti í gildi fyrr í vikunni. Flestir þingmenn stjórnarflokksins yfirgáfu þingsalinn þegar atkvæðagreiðslan fór fram.

Yfirgáfu þingsalinn fyrir atkvæðagreiðsluna

Ólíklegt er að ákæra um embættismissi á hendur forseta Suður-Kóreu nái í gegnum Suður-kóreska þingið. Langflestir þingmenn stjórnarflokksins yfirgáfu þingsalinn áður en atkvæðagreiðslan hófst. Mikil vonbrigði eru meðal mótmælenda.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×