Handbolti

Ljóst hvar stórmótin í kringum HM á Ís­landi verða

Sindri Sverrisson skrifar
Íslenskir stuðningsmenn hafa verið duglegir að fjölmenna á stórmót.
Íslenskir stuðningsmenn hafa verið duglegir að fjölmenna á stórmót. vísir/Vilhelm

Handknattleikssamband Evrópu, EHF, greindi frá því í dag hvar EM karla 2030 og 2032 verða haldin, og hvar EM kvenna 2032 verður haldið. Engar þjóðir sóttu um að halda EM kvenna 2030 og því óvíst hvar það fer fram.

Bæði karla- og kvennalandslið Íslands eru nú farin að gera sig gildandi á Evrópumótum og því vel hægt að ímynda sér að Íslendingar ferðist á stórmótin sem hér um ræðir.

Strákarnir okkar hafa komist á hvert einasta EM frá og með árinu 2000 og er búið að raða þeim í riðil í Kristianstad í Svíþjóð á næsta EM, sem fram fer í janúar 2026. Eftir niðurstöðu EHF í dag eru þetta næstu gestgjafar EM karla:

2026: Danmörk, Noregur og Svíþjóð (úrslitahelgin í Herning)

2028: Portúgal, Spánn og Sviss (úrslitahelgin á Spáni)

2030: Tékkland, Pólland og Danmörk (úrslitahelgin í Prag)

2032: Þýskaland og Frakkland (úrslitahelgin í Þýskalandi)

Áður hafði komið fram að strákarnir okkar yrðu á heimavelli á HM 2031 því Ísland mun halda það mót ásamt Noregi og Danmörku, að því gefnu að ný þjóðarhöll verði þá risin.

EHF þarf að finna gestgjafa 2030

Stelpurnar okkar léku á EM sem brátt er að ljúka og farið hefur fram í Ungverjalandi, Sviss og Austurríki, og var það fyrsta Evrópumót þeirra síðan árið 2012.

Rússar áttu að halda næsta Evrópumót en það var tekið af þeim eftir innrás þeirra í Úkraínu.

Gestgjafar næstu Evrópumóta kvenna eru:

2026: Tékkland, Pólland, Rúmenía, Slóvakía og Tyrkland

2028: Danmörk, Noregur og Svíþjóð

2030: Engin umsókn og í höndum framkvæmdaráðs EHF að ákveða

2032: Þýskaland, Danmörk og Pólland (úrslitahelgin í Þýskalandi)




Fleiri fréttir

Sjá meira


×