Handbolti

Þórir kvaddi norska liðið með Evrópu­titli

Smári Jökull Jónsson skrifar
Þórir Hergeirsson kveður norska liðið sem einn sigursælasti þjálfari handboltasögunnar.
Þórir Hergeirsson kveður norska liðið sem einn sigursælasti þjálfari handboltasögunnar. Vísir/EPA

Þórir Hergeirsson kveður norska landsliðið í handknattleik með Evrópumeistaratitli en Noregur vann öruggan sigur á Dönum í úrslitaleik í Vínarborg í dag. Þetta er ellefti stóri titill norska liðsins undir stjórn Þóris.

Eins og mikið hefur verið ritað um var þessi úrslitaleikur síðasti leikur norska liðsins undir stjórn Þóris Hergeirssonar sem tilkynnti fyrr á árinu að hann myndi hætta þjálfun liðsins að mótinu loknu.

Fyrri hálfleikur var frábær skemmtun og jafnt á nánast öllum tölum. Markverðir liðanna, þær Silje Solberg og Anna Kristensen, voru báðar að leika vel og úti á vellinum var spilaður hraður og skemmtilegur handbolti.

Staðan í hálfleik var 13-12 norska liðinu í vil eftir að Henny Reistad skoraði síðasta markið undir lok fyrri hálfleiksins.

Stórkostlegur síðari hálfleikur Noregs

Í upphafi síðari hálfleiks náði Noregur hins vegar áhlaupi. Þær voru búnar að skora sex af fyrstu átta mörkum síðari hálfleiks þegar neyddust Danir til að taka leikhlé í stöðunni 19-14 fyrir Noreg. Það hafði hins vegar lítið að segja. Norska liðið hélt áfram að hamra járnið og þegar fimmtán mínútur voru eftir var munurinn orðinn sjö mörk og sjötti Evrópumeistaratitill Þóris Hergeirssonar með norska liðinu í sjónmáli.

Munurinn varð mestur níu mörk og gat Þórir byrjað að fagna á bekknum löngu áður en leikurinn var á enda. Lokatölur 31-24 og þriðji Evróputitill norska liðsins í höfn og enn ein rósin í hnappagat Þóris Hergeirssonar sem var tolleraður af leikmönnum liðsins í leikslok.

Henny Reistad var markahæst í norska liðinu með átta mörk og hornamaðurinn Emelie Hovden skoraði sjö mörk. Silje Solberg var góð í markinu og varði tólf skot eða 36% skotanna sem hún fékk á sig. Í danska liðinu voru þær Anne Mette Hansen og Mie Höjlund markahæstar með fimm mörk og Anna Kristensen varði níu skot í markinu.

Þetta er ellefti stóri titillinn sem norska liðið vinnur undir stjórn Þóris Hergeirssonar sem er afrek sem seint verður slegið. Hann kveður liðið nú sem sigursælasti þjálfari handboltasögunnar og verður þessi síðasti að teljast einn af þeim stærstu því liðið missti öfluga leikmenn síðan það varð Ólympíumeistari í París í sumar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×