Enski boltinn

Þórir vildi Haaland í hand­boltann

Smári Jökull Jónsson skrifar
Þórir vildi að Haaland myndi velja handboltann.
Þórir vildi að Haaland myndi velja handboltann. Vísir/Getty

Þórir Hergeirsson vann sinn sjötta Evróputitil með Noregi í gær á sama tíma og Erling Haaland þurfti að sætta sig við tap í Manchesterslag í ensku úrvalsdeildinni. Þórir reyndi að sannfæra Haaland um að velja handboltann framyfir fótboltann á sínum tíma.

Eins og flestir vita er Erling Haaland einn besti knattspyrnumaður heims og hefur raðað inn mörkum fyrir Manchester City síðustu misserin. Ef handknattleiksþjálfarinn Þórir Hergeirsson hefði fengið að ráða hefði niðurstaðan hins vegar getað orðið önnur.

Þegar Haaland var yngri spilaði hann handbolta samhliða fótboltanum. Í viðtali við NRK greinir Haaland frá því að Þórir hafi komið að máli við hann eftir handboltaleik þar sem Haaland hafði spilað vel.

„Hann sagði mér að velja handboltann því ég gæti orðið virkilega góður,“ sagði Haaland og sagðist taka undir orð Þóris.

„Ég held ég hefði getað orðið góður í handbolta. Ég valdi hins vegar ekki handboltann og ég held að fótboltinn hafi verið rétt val,“ bætti Haaland við en viðtalið var tekið í tengslum við uppskeruhátíð íþróttamanna í Noregi nú í árslok.

„Hefði kannski bara verið hornamaður“

Þórir Hergeirsson segist muna eftir að hafa hitt Haaland en ekki hvað þeim fór á milli.

„Ég veit ekki hvort ég hafi sagt að hann ætti að velja handboltann. Hann hefði getað orðið mjög, mjög góður handboltaleikmaður.“

Hann segist muna vel hvað hann hugsaði þegar hann sá Haaland á sínum tíma á handboltavellinum.

„Hann var sama týpa í yngri flokkunum. Markaskorari og var ótrúlega góður í að skora mörk. Hann var með markanef, hraða, sprengikraft og auga fyrir spili,“ sagði Þórir í viðtali við NRK.

Þórir er líka með á hreinu hvar hann hefði stillt Haaland upp á vellinum.

„Mögulega hefði hann ekki haft sömu yfirburða stöðu líkamlega í handboltanum, líkt og í fótboltanum. Hann hefði kannski bara verið hornamaður.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×