Erlent

Stjórnlagadómstóll tekinn til starfa í Suður-Kóreu

Gunnar Reynir Valþórsson skrifar
Dómstóllinn hefur sex mánuði til að komast að niðurstöðu.
Dómstóllinn hefur sex mánuði til að komast að niðurstöðu. AP/Embætti forsetaskrifstofu

Stjórnlagadómstóll Suður-Kóreu hefur boðað réttarhöld í máli forsetans Yoon Suk Yeol sem mikill styr hefur staðið um undanfarnar vikur.

Forsetinn setti herlög í landinu á dögunum sem komu öllum í opna skjöldu en þingmönnum tókst að afnema þau skömmu síðar. Síðan var reynt að fá þingheim til þess að ákæra forsetann fyrir embættisglöp en það tókst ekki í fyrstu tilraun. Sú tillaga var svo loks samþykkt á Suður-kóreska þinginu á laugardaginn var og hefur forsetanum nú verið vikið úr embætti tímabundið.

Stjórnlagadómstóll hefur nú sex mánuði til þess að ákveða hvort forsetanum verði vikið úr embætti eða hann settur í það að nýju. Þó er búist við því að dómstóllinn taki ákvörðun fyrr en seinna þar sem mikill þrýstingur er á um það frá mótmælendum að forsetinn fari frá.

Ef dómstóllinn kemst að þeirri niðurstöðu að víkja forsetanum úr embætti þarf að boða til kosninga innan tveggja mánaða. Núverandi forsætisráðherra landsins sinnir störfum forsetans á meðan á þessu gengur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×