Körfubolti

Blóð­taka fyrir Njarð­vík

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Bo Guttormsdóttir Frost kveður Njarðvík.
Bo Guttormsdóttir Frost kveður Njarðvík. vísir/jón gautur

Njarðvík, topplið Bónus deildar kvenna í körfubolta, hefur orðið fyrir blóðtöku. Næststigahæsti leikmaður liðsins er farin til náms erlendis.

Hin sextán ára Bo Guttormsdóttir Frost kom til Njarðvíkur fyrir tímabilið. Hún hefur spilað tíu af ellefu leikjum liðsins í Bónus deildinni og skorað 11,1 stig og tekið 3,5 fráköst að meðaltali í þeim.

Bo, sem á enska móður og íslenskan föður, leikur ekki með Njarðvík eftir áramót því hún heldur til náms í Englandi í janúar.

Í viðtali á heimasíðu Njarðvíkur segir Einar Árni Jóhannsson, þjálfari liðsins, óvíst hvort það muni bæta við sig leikmanni til að fylla skarð skarð Bo.

„Við vorum ekki að leita þegar Bo hafði samband við okkur í haust. Hún kom með hæð sem okkur vantaði í hópinn en hún kom líka með gæði. Við þurfum bara að sjá hvað verður. Þetta kemur frekar óvænt upp og eins og ég sagði þá vorum við að vonast til að halda henni út tímabilið,“ sagði Einar Árni. 

„Við erum með fullt af stelpum sem þurfa og geta bætt við sig snúning farandi inn í nýtt ár en svo veit maður aldrei hvort að einhver banki á dyrnar hjá okkur rétt eins og Bo gerði í haust. Það er alveg klárt að við erum ekki að fara að bæta við erlendum leikmanni. Við erum með flottan hóp sem ætlar að standa sig vel í vetur.“

Njarðvík komst á topp Bónus deildarinnar með sigri á Keflavík í gær, 98-88. Þetta var fjórði heimasigur Njarðvíkinga í deildinni í röð.

Fyrsti leikur Njarðvíkur á nýju ári er gegn Tindastóli á útivelli 4. janúar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×