Fótbolti

FIFA þurfti að biðja verðandi mót­herja Ís­lands af­sökunar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Úkraínumaðurinn Oleksandr Zinchenko og íslenski landsliðsmaðurinn Albert Guðmundsson eftir leik þjóðanna í umspili um sæti á EM 2024.
Úkraínumaðurinn Oleksandr Zinchenko og íslenski landsliðsmaðurinn Albert Guðmundsson eftir leik þjóðanna í umspili um sæti á EM 2024. Getty/Andrzej Iwanczuk

Alþjóða knattspyrnusambandið, FIFA, hefur sent Úkraínumönnum afsökunarbeiðni vegna dráttarins í undankeppni HM 2026 á föstudaginn var.

Úkraína lenti þar í riðli með okkur Íslendingum auk Aserbaísjan og sigurvegaranum úr leik Frakklands og Króatíu í úrslitakeppni Þjóðadeildarinnar.

Í drættinum þá sýndi FIFA kort af Úkraínu þegar farið var yfir hvaða þjóðir mættu ekki mæta hvorri annarri. TV2 segir frá.

Úkraínumenn voru fljótir að benda á það að á landakorti FIFA var Krímskaginn hluti af Rússlandi en ekki hluti af Úkraínu. Rússar réðust inn á Krímskagann fyrir meira en áratug (2014) og réðust síðan inn í Úkraínu árið 2022.

„Með því að teikna kortið upp á rangan hátt þá ertu ekki aðeins að vanvirða alþjóðleg lög heldur einnig að taka undir rússneskan áróður, stríðsglæpi þeirra og styðja árás þeirra á Úkraínumenn,“ sagði Heorhij Tykhy, utanríkisráðherra Úkraínu.

Utanríkisráðuneyti Úkraínu hafði samband við FIFA og sambandið hefur nú sent frá sér afsökunarbeiðni.

„Kortið var unnið af þriðja aðila og við höfum þegar hafið vinnu við að betrumbæta þetta. Þar á meðal er að fjarlægja þetta kort úr öllum okkar kerfum,“ sagði í bréfi frá Mathias Grafström, framkvæmdastjóra FIFA.

„Við gerum okkur fulla grein fyrir því hversu viðkvæmt þetta er. Við hörmum alla vanlíðan sem kortið olli og við biðjum um skilning á meðan við leysum málið.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×