Körfubolti

Kláraði NBA regn­bogann eins og Shaq

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Dennis Schröder skilaði flottum tölum með liði Brooklyn Nets á þessu tímabili en nú er hann kominn til Golden State Warriors.
Dennis Schröder skilaði flottum tölum með liði Brooklyn Nets á þessu tímabili en nú er hann kominn til Golden State Warriors. Getty/Evan Bernstein

Dennis Schröder er nýjasti leikmaður Golden State Warriors í NBA deildinni í körfubolta en kappinn gekk frá samningi við liðið um helgina.

Þetta verður áttunda félag Schröder í NBA á síðustu átta tímabilum. Það er því óhætt að segja að þýski bakvörðurinn hafi verið á ferð og flugi undanfarin ár.

Netverjar voru hins vegar fljótir að benda á það að blái liturinn í búningi Golden State var einmitt liturinn sem Schröder vantaði til að loka NBA regnboganum.

Nú hefur Schröder leikið eftir afrek Shaquille O´Neal að spila í öllum litlum regnbogans í NBA deildinni.

Schröder var leikmaður Atlanta Hawks 2013 til 2018, Oklahoma City Thunder 2018 til 2020, Los Angeles Lakers 2020-21, Boston Celtics 2021-22, Houston Rockets 2022, Los Angeles Lakers 2022–2023,Toronto Raptors 2023 til 2024, Brooklyn Nets 2024 og nú Golden State Warriors frá 2024.

Hann hefur þar með spilað í rauðu (Toronto Raptors), appelsínugulu (Oklahoma City Thunder), gulu (Los Angeles Lakers), grænu (Boston Celtics), bláu (Golden State Warriors), svörtu (Atlanta Hawks) og fjólubláu (Lakers).

Shaq náði þessu með Miami Heat (rauður), Phoenix Suns (appelsínugulur), Los Angeles Lakers (gulur) Boston Celtics (grænn), Orlando Magic (blár), Clveveland Cavaliers (svartur) og Los Angeles Lakers (fjólublár).

Schröder var með 18,4 stig og 6,6 stoðsendingar í leik í fyrstu 23 leikjum sínum með Brooklyn Nets á þessu tímabili.

Hann hefur alls spilað 790 leiki í NBA og er með 14,2 stig og 4,9 stoðsendingar að meðaltali í leik i þeim.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×