Körfubolti

Álftnesingar semja við leik­mann sem á að baki 72 leiki í NBA

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Justin James í leik með Sacramento Kings á móti Phoenix Suns í janúar 2020.
Justin James í leik með Sacramento Kings á móti Phoenix Suns í janúar 2020. Getty/Christian Petersen

Justin James er nýr leikmaður Álftnesinga í Bónus deild karla í körfubolta en um leið hefur félagið látið annan Bandaríkjamenn fara.

Andrew Jones hefur sagt skilið við liðið og spilar því ekki fleiri leiki í búningi Álftaness. Í stað hans er kominn öflugur leikmaður sem á að baki tvö tímabil í NBA deildinni.

Justin James var valinn númer 40 í nýliðavalinu af Sacramento Kings árið 2019 og var í tvö ár hjá félaginu frá 2019 til 2021.

Keflavík er því ekki lengur eina liðið í Bónus deild karla sem teflir fram fyrrum NBA leikmanni en Ty-Shon Alexander á þó bara 15 deildarleiki í NBA að baki. Hann bætti reyndar einum leik við í úrslitakeppninni.

„James er tæplega tveggja metra hár bakvörður sem hefur leikið í Bandaríkjunum og í Frakklandi. Hann var í tvö ár hjá Kings og þótti leika af krafti og var annálaður fyrir að vera virkur liðsfélagi,“ segir í frétt á miðlum Álftaness.

Með Kings lék James 72 leiki og skoraði 3,2 stig í leik. Eftir tvö ár hjá Kings samdi hann við Cleveland Cavaliers og lék eitt tímabil í þróunardeild NBA (G-League) fyrir venslaliðið Cleveland Charge.

James hóf tímabilið 2022 – 2023 í efstu deild Frakklands og lék þar fyrir eitt vinsælasta lið álfunnar Metropolitans 92, en þar var franska stjarnan Victor Wenbanyama í aðalhlutverki. James lék alls 12 leiki í Frakklandi, skoraði tæp 11 stig, tók rúm þrjú fráköst og gaf tæplega þrjár stoðsendingar.

James lauk svo því tímabili í G-League en meiddist á ökkla undir lok tímabilsins og sat út síðustu leiktíð á meðan hann náði sér góðum.

Næsti leikur hjá Álftanesliðinu er á móti Hetti á fimmtudagskvöldið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×