Freeland sendi frá sér uppsagnarbréf í dag þar sem fram kom að ágreiningur hennar og flokksbróður síns snúi að hótunum Donald Trump verðandi Bandaríkjaforseta um að leggja á 25 prósent innflutningsgjald á kanadískan innflutning.
Í bréfinu, sem stílað er á Trudeau, segist hún ekki geta fallist á það með honum að auka þurfi útgjöld til að takast á við umrætt innflutningsdjald.
„Á föstudaginn sagðirðu mér að þú vildir ekki að ég gegndi embætti fjármálaráðherra lengur og bauðst mér annað ráðuneyti. Eftir umhugsun hef ég ákveðið að það heiðarlegasta í stöðunni er að segja af mér,“ segir í bréfi Freeland.
See my letter to the Prime Minister below // Veuillez trouver ma lettre au Premier ministre ci-dessous pic.twitter.com/NMMMcXUh7A
— Chrystia Freeland (@cafreeland) December 16, 2024
Í umfjöllun Reuters segir að afsögn Freeland komi til með að hafa neikvæð áhrif á framtíð Trudeau í stjórnmálum, en Frjálslynda flokknum er þegar spáð slæmu gengi í næstu þingkosningum. Íhaldsflokknum, sem er í stjórnarandstöðu á yfirstandandi kjörtímabili, er aftur á móti spáð góðu gengi í kosningunum, sem áætlað er að fari fram í október 2025.
Heimildir kanadíska ríkisútvarpsins herma að Dominic LeBlanc varnarmálaráðherra Kanada verði skipaður fjármálaráðherra síðar í dag.