Málið á rætur að rekja til orðræðu sem Helgi Magnús viðhafði um Mohamed Thor Jóhannesson, áður Kourani, en Helgi Magnús og fjölskylda þurftu um árabil að sæta þrálátum hótunum af hálfu Kouranis.
Hann var kærður af stjórn Solaris, hjálparsamtaka fyrir hælisleitendur og flóttafólk á Íslandi, vegna ummælanna. Sigríður Friðjónsdóttir ríkissaksóknari lagði í kjölfarið til við dómsmálaráðherra að Helgi Magnús yrði leystur tímabundið frá störfum vegna kærunnar.
Ákvað sig snemma í september
Guðrún Hafsteinsdóttir ákvað þann 9. september síðastliðinn að ekki væri tilefni til þess að leysa Helga Magnús frá störfum.
„Það er afstaða dómsmálaráðherra að ummæli vararíkissaksóknara hafi ekki aðeins verið óviðeigandi og í ósamræmi við stöðu hans sem embættismanns, heldur hafi þau einnig verið til þess fallin að draga úr og grafa undan trúverðugleika embættis ríkissaksóknara og ákæruvaldsins í heild. Í því samhengi skipti máli að ummælin beindust meðal annars að innflytjendum og flóttafólki, tilteknum samtökum og einstaklingi sem starfar sem lögmaður. Þá var um ítrekaða háttsemi að ræða, sem var jafnframt sama eðlis og viðkomandi embættismaður fékk áminningu fyrir tveimur árum áður,“ sagði í tilkynningu á vef Stjórnarráðsins.
Sigríður verði að finna lendingu
Helgi Magnús segir í samtali við Vísi að hann reikni með því að snúa aftur til starfa á föstudag. „Sigríður er yfirmaður og hún verður einhvern veginn að finna lendingu á þessu, ég vil bara fara að vinna og að allir séu sáttir.“