Fótbolti

Ofurdeild Evrópu aftur á dag­skrá en undir nýju nafni og með 96 liðum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Florentino Perez, forseti Real Madrid mætti verðlaunahátíð FIFA á dögunum. Hér er hann í góðum hópi.
Florentino Perez, forseti Real Madrid mætti verðlaunahátíð FIFA á dögunum. Hér er hann í góðum hópi. Getty/Mohamed Farag

A22 Sports, skipuleggjandi Ofurdeildarinnar, segist hafa sent UEFA og FIFA beiðni um að samböndin viðurkenni rétt fyrirtækisins til að stofna nýja Evrópukeppni fyrir félagslið.

Ofurdeildin er því  aftur komin á dagskrá en stofendur hennar nýttu tækifærið eftir úrskurð Evrópudómstólsins um að UEFA og FIFA hafi misnotað yfirburðastöðu sína og brotið þar með reglur Evrópusambandsins.

Þetta gerir skipuleggjandi Ofurdeildarinnar þrátt fyrir að UEFA hafi breytt lögum sínum til að fara eftir lögum Evrópusambandsins.

A22 hefur breytt aðeins hugmynd sinni um Ofurdeildina og þá hefur hún einnig breytt um nafn.

Ofurdeildin mun hér eftir heita „Unify League“ eða Samstöðudeildin ef við reyndum að þýða þetta.

Lykilatriði er breytt fyrirkomulag á leið félaga í keppnina en hún myndi þá byggja á árangri liðanna í heimadeild sinni. Áður áttu aðeins 64 félög að vera með en nú eru plön um að liðin verði 96.

A22 segir að deildin innihaldi nú fjórar deildir. Tvær efstu, Stjörnudeildin og Gulldeildin, munu báðar vera með sextán lið hvor sem skiptast niður á tvo átta liða riðla. Í bláu deildinni og Sameiningadeildinni verður 32 liðum skipt niður í fjóra átta liða riðla.

Liðin muna mæta öðrum liðum í riðlinum á bæði heima- og útivelli og bestu liðin fara síðan áfram í úrslitakeppnin. Undanúrslit og úrslitaleikurinn fara fram á hlutlausum velli.

Real Madrid, Barcelona, Atlético Madrid, AC Milan, Arsenal, Chelsea, Inter Milan, Juventus, Liverpool, Manchester City, Manchester United og Tottenham Hotspur ætluðu upphaflega að vera með í Ofurdeildinni en ensku liðin hættu fljótlega við. Real Madrid og Barcelona hafa aldrei dregið í land þrátt fyrir að hin öll hafi hætt við.

Eftir dóminn í desember ítrekuðu samt enska úrvalsdeildin, þýska deildin, spænska deildin og ítalska deildin andstöðu sína gegn Ofurdeildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×