Körfubolti

Tindastólsstelpur skoruðu þrjá­tíu stig í röð

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Randi Brown og Oumoul Sarr voru öflugar að venju hjá liði Tindastóls í kvöld.
Randi Brown og Oumoul Sarr voru öflugar að venju hjá liði Tindastóls í kvöld. Vísir/Diego

Kvennalið Tindastóls fer inn í jólafríið á miklu skriði en liðið vann sinn fjórða deildarsigur í röð í kvöld.

Tindastólsstelpurnar mættu í Garðabæinn og unnu 35 stiga stórsigur á Stjörnunni, 92-57.

Stjörnuliðið var spútnikliðið í fyrra en það lítur fyrir að Stólarnir ætli að vera spútnikliðið í ár.

Tindstóll er nú með jafnmörg stig og Keflavík, 14 stig, í þriðja til fjórða sæti deildarinnar. Liðið hefur unnið sjö af ellefu leikjum sínum.

Stjörnustelpurnar stóðu vel í Tindastóls framan af leik og heimakonur voru einu stigi yfir í hálfleik, 44-43. Seinni hálfleikurinn var hins vegar eign Stólanna.

Tindastóll vann þriðja leikhlutann 21-10 og skoruðu síðan 26 fyrstu stigin í lokaleikhlutanum. Þær höfðu líka skorað fjögur síðustu stigin í þriðja og náðu því að skora þrjátíu stig í röð. Eftir það var ljóst að Stólarnir myndu vinna stórsigur

Randi Brown var atkvæðamest hjá Tindastólsliðinu með 32 stig en Lettinn Ilze Jakobsone var með 20 stig og 12 stoðsendingar. Hin senegalska Oumoul Sarr var líka öflug með 19 stig, 11 fráköst og 5 stoðsendingar.

Fanney María Freysdóttir skoraði 13 stig fyrir Stjörnuna og Denia Davis- Stewart var með 12 stig. Kolbrún María Ármannsdóttir bætti við 10 stigum, 8 fráköstum og 4 stoðsendingum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×