Skoðun

Dæma­laus mál­flutningur

Hjörtur J. Guðmundsson skrifar

Með ákvörðun Bjarna Benediktssonar, forsætisráðherra og matvælaráðherra, um að afgreiða umsóknir um hvalveiðileyfi fyrr í þessum mánuði var ekki tekin stefnumótandi ákvörðun heldur einungis framfylgt gildandi lögum. Með öðrum orðum var um að ræða ákvörðun í fullu samræmi við það hlutverk starfsstjórna að sinna þeim verkefnum sem þurfi að sinna. Eitt af því er að umsóknir séu afgreiddar af stjórnsýslunni.

Mikilvægt er þó að hafa í huga að engum skýrum stjórnskipunarreglum er fyrir að fara sem takmarka valdheimildir ráðherra í starfsstjórn umfram það sem gildir um ráðherra í öðrum ríkisstjórnum. Enn fremur er vert að hafa í huga að hefði ráðherrann ákveðið að bíða með afgreiðsluna þar til ný ríkisstjórn hefði verið mynduð, sem engan veginn var ljóst hvernær yrði, hefði það farið gegn stjórnsýslulögum.

Til dæmis segir þannig í 9. grein stjórnsýslulaga nr. 37/1993 um málshraða: „Ákvarðanir í málum skulu teknar svo fljótt sem unnt er.“ Sem fyrr segir var alls óvíst hvenær ný ríkisstjórn tæki við völdum þegar ákvörðunin var tekin og er raunar enn ekki endanlega ljóst. Miðað við forsöguna hefði það getað tekið vikur og jafnvel mánuði. Ljóst er að ákvörðun um að bíða með afgreiðsluna á þeim forsendum gat aldrei samrýmst lögunum.

Hefði starfandi ríkisstjórn hins vegar ákveðið að fara ekki að stjórnsýslulögum og bíða með afgreiðslu umsóknanna hefði ný ríkisstjórn alltaf þurft að afgreiða þær á grundvelli þeirra laga sem í gildi voru þegar þær voru sendar inn. Það er að segja núgildandi laga. Ef sett yrðu ný lög eða núgildandi lögum breytt og umsóknirnar síðan afgreiddar á grundvelli þeirra væri ljóslega um afturvirkni að ræða sem er óheimil.

Varla getur það talizt ásættanlegt að stjórnvöld geti breytt lögum eftir að umsóknum frá borgurunum hefur verið skilað inn og hafnað þeim síðan á þeim forsendum. Við þær aðstæður hefði sannarlega mátt tala um valdníðslu og gerræðisleg vinnubrögð. Hins vegar verður að teljast afar ólíklegt að þeir sem gagnrýnt hafa afgreiðslu umsóknanna á grundvelli gildandi laga mest hefðu gert nokkra athugasemd við það.

Höfundur er sagnfræðingur og alþjóðastjórnmálafræðingur (MA í alþjóðasamskiptum með áherzlu á Evrópufræði og öryggis- og varnarmál).




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×