Lífið

Ringo tróð upp á tón­leikum Paul Mc­Cart­n­ey

Atli Ísleifsson skrifar
Paul McCartney á tónleikum í Kólumbíu í síðasta mánuði.
Paul McCartney á tónleikum í Kólumbíu í síðasta mánuði. EPA

Trommarinn Ringo Starr birtist óvænt á sviði á tónleikum Paul McCartney í O2 Arena í Lundúnum í gærkvöldi.

Gríðarlegur fögnuður braust út þegar Ringo var kynntur upp á svið. Félagarnir tóku svo lögin Helter Skelter og Sgt Pepper's Lonely Hearts Club Band.

„Ég hef átt frábært kvöld og ég elska ykkur öll,“ sagði Ringo að loknum flutningi og áður en hann gekk af sviðinu.

Þeir Ringo Starr og Paul MacCartney voru saman í sveitinni Bítlunum á sínum tíma ásamt þeim John Lennon og George Harrison sem nú eru látnir.

Tónleikar gærkvöldsins voru þeir síðustu í Get Back-tónleikaferð hins 82 ára McCartney, en hann tróð þar meðal annars upp í Frakklandi, á Spáni, í Brasilíu og Englandi.

Ringo Starr var ekki eini gesturinn sem McCartney fékk til að aðstoða sig í gærkvöldi. Þannig mætti líka Ronnie Wood, gítarleikari Rolling Stones, og spilaði undir þegar McCartney söng lagið Get Back. Í því lagi spilaði McCartney á Hofner 500/1-bassa sinn í fyrsta sinn í fimmtíu ár en honum var stolið 1972 en komst aftur í hendur McCartney fyrr á þessu ári.

Paul McCartney og Ringo Starr hafa nokkrum sinnum komið fram saman á tónleikum frá því að Bítlarnir leystust upp árið 1969, þar með talið árið 2015 þegar Ringo var tekinn inn í Frægðarhöll rokksins og svo á síðustu tónleikaferð McCartney árið 2019.

McCartney fluttu nærri fjörutíu lög á tónleikunum í gær.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.