Fótbolti

Ísak Berg­mann skoraði í slæmu tapi

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Ísak Bergmann Jóhannesson og félagar í Düsseldorf hafa aðeins unnið einn af síðustu átta leikjum í gríðarlega jafnri og spennandi deild. 
Ísak Bergmann Jóhannesson og félagar í Düsseldorf hafa aðeins unnið einn af síðustu átta leikjum í gríðarlega jafnri og spennandi deild.  Getty

Ísak Bergmann Jóhannesson skoraði fyrra mark Fortuna Dusseldorf í 2-5 tapi gegn Magdeburg í næstefstu deild Þýskalands.

Valgeir Lunddal Friðriksson var einnig í byrjunarliði heimamanna en var tekinn af velli á 75. mínútu.

Mark Ísaks var jöfnunarmark, á fimmtándu mínútu eftir að heimamenn höfðu lent undir skömmu áður. Þetta var hans sjötta mark á tímabilinu í 17 leikjum.

Fortuna komst 2-1 yfir rétt fyrir hálfleik en átti afleitan seinni hálfleik.

Magdeburg skoraði tvö mörk með skömmu millibili, rétt áður en vinstri vængbakvörður Fortuna, Tim Rossmann, fékk að líta sitt annað gula spjald og var rekinn af velli. Gestirnir bættu svo gráu ofan á svart fyrir Fortuna og settu tvö mörk til viðbótar áður en lokaflautið gall.

Fortuna hefur verið í smá lægð eftir frábæra byrjun á tímabilinu og aðeins unnið einn af síðustu átta deildarleikjum.

Liðið situr nú í fimma sæti en deildin er gríðarlega jöfn. Efstu fjögur liðin eru öll með 28 stig, næstu fjögur lið fyrir neðan eru öll með 26 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×