Körfubolti

„Sást frekar ber­sýni­lega að það er ekki mikið sjálfs­traust í liðinu“

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Finnur Freyr Stefánsson, þjálfari Vals, fer yfir málin með sínum mönnum í kvöld.
Finnur Freyr Stefánsson, þjálfari Vals, fer yfir málin með sínum mönnum í kvöld. Vísir/Anton Brink

„Þetta er bara virkilega kærkomið í ljósi þess hvernig þessi vetur er búinn að vera. Ég er bara átrúlega ánægður með strákana,“ sagði Finnur Freyr Stefánsson, þjálfari Vals, eftir sterkan og mikilvægan níu stiga sigur gegn Tindastóli í Bónus-deild karla í kvöld.

„Leikurinn litast svolítið af fjarveru manna. Okkur vantaði leikstjórnanda og þá vantaði svolítið upp á stærðina í teignum hjá sér. Leikurinn var svolítið skrýtinn frá fyrstu mínútu og bara nánast allan leikinn. Við vorum aðeins of seinir að rótera í vörninni og vorum að fá mikið af heimskulegum körfum á okkur. En við náðum að laga það og fórum að vera þolinmóðari í sókninni og þá fórum við að gera betur.“

„Þeir voru aggressívir við okkur hérna í seinni hálfleik, en við náðum að leysa það vel þó við höfum kannski hleypt þeim fullnálægt okkur.“

Hann viðurkennir að það hafi farið um hann óþægileg tilfinning þegar Tindastólsmenn náðu að minnka muninn niður í tíu stig eftir að Valsliðið náði mest 23 stiga forskoti.

„Já og það sást frekar bersýnilega að það er ekki mikið sjálfstraust í liðinu. Þeim finnst þeir geta gert betur.“

Sigur kvöldsins þýðir að Valsmenn verða ekki í fallsæti þegar jólahátíðin gengur í garð, en Finnur er þó langt frá því að ætla að fara að fagna of snemma.

„Við erum bara með fjóra sigra og það er fullt af liðum með fjóra sigra. Okkar fókus er fyrst og fremst bara að verða betri og finna okkar „identity“. Finna hvað við viljum gera í vörn og sókn og reyna að gera það töluvert betur en við höfum verið að gera.“

„Fókusinn er bara að koma okkur á betri stað, æfa vel og sýna okkur sjálfum betri frammistöðu en við höfum verið að sýna,“ sagði Finnur að lokum




Fleiri fréttir

Sjá meira


×