Innlent

„Kurr í greininni í dag um að þetta skuli hvort tveggja vera á mat­seðlinum“

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Hanna Katrín Friðriksson er nýr atvinnuvegaráðherra og mun fara með málefni ferðaþjónustunnar í ríkisstjórn Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Flokks fólskins. Hér er hún ásamt stjórninni í rokinu á tröppum Bessastaða fyrr í dag.
Hanna Katrín Friðriksson er nýr atvinnuvegaráðherra og mun fara með málefni ferðaþjónustunnar í ríkisstjórn Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Flokks fólskins. Hér er hún ásamt stjórninni í rokinu á tröppum Bessastaða fyrr í dag. Vísir/Vilhelm

Ákveðnar áhyggjur og kurr ríkir innan ferðaþjónustunnar eftir daginn í dag þegar ný ríkisstjórn sýndi á spilin og kynnti stefnuyfirlýsingu sína. Meðal annars stendur til að leggja á auðlinda- og komugjöld á greinina sem veldur nokkrum áhyggjum innan greinarinnar að sögn framkvæmdastjóra Samtaka ferðaþjónustunnar. Hann fagnar því þó að ekki standi til að hækka virðisaukaskatt á greinina og hlakkar til samstarfs með nýjum ráðherra.

„Ég vil bara óska nýrri ríkisstjórn til hamingju. Það er bara gaman að sjá að þetta hafi tekið stuttan tíma og er komið svona fljótt á stað. Það er náttúrlega ekki mjög djúpt farið í ýmsa hluti í stefnuyfirlýsingunni,“ segir Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar. 

Jóhannes Þór Skúlason er framkvæmdarstjóri Samtaka ferðaþjónustunnarVísir/Vilhelm

Fram kemur í stefnuyfirlýsingu stjórnarflokkanna þriggja um ferðaþjónustuna að ríkisstjórnin hyggist ná markmiðum sínum með því að „Með því að stuðla að verðmætasköpun, öryggi og álagsstýringu í ferðaþjónustu. Vinsælustu ferðamannastaðir landsins eru í eigu þjóðarinnar og ríkisstjórnin hyggst taka upp auðlindagjald fyrir aðgang ferðamanna að náttúruperlum Íslands. Á meðan unnið er að útfærslu verða innheimt komugjöld,” líkt og það er orðað í stefnuyfirlýsingunni.

Ferðaþjónustan teygir anga sína víða innan stjórnkerfisins og á eftir að koma betur í ljós hvort og hvernig þeir þættir sem snerta ferðaþjónustuna verða útfærðir. „Við hlökkum til að vinna með nýjum ráðherra ferðamála. Mér lýst mjög vel á hana,“ segir Jóhannes Þór.

Málefni ferðaþjónustunnar munu heyra undir atvinnuvegaráðuneyti Hönnu Katrínar Friðriksson í Viðreisn.Vísir/Vilhelm

Tvenns konar gjaldtaka á matseðlinum

„Hvað varðar þau atriði sem nefnd eru sérstaklega varðandi ferðaþjónustu þá er það náttúrlega sérstaklega ánægjulegt það sem ekki er nefnt, það er að segja að það skuli ekki, og það tekið skýrt fram, hækka virðisaukaskatt á ferðaþjónustu,“ segir Jóhannes, en fram kom á blaðamannafundi formanna flokkanna fyrr í dag að ekki standi til að hækka virðisaukaskatt á ferðaþjónustuna.

„Hins vegar eigum við eftir að sjá hvers konar útfærslur ríkisstjórnin er með í huga varðandi það sem nefnt er í aðra gjaldtöku, komugjöld og auðlindagjöld, það er eitthvað sem við þurfum bara að fá að skoða betur og sjá hvaða hugmyndir eru á bakvið það. En ég get ekki neitað því að það hefur aðeins verið kurr í greininni í dag um það að þetta skuli hvort tveggja vera á matseðlinum. Við viljum gjarnan sjá aðeins betur inn í það hvernig er verið að hugsa þetta,“ segir Jóhannes.

Hvoru tveggja væri ný gjaldtaka á ferðaþjónustu sem eðli málsins samkvæmt geti haft frekari áhrif á afkomu greinarinnar. „Í grein þar sem að afkoman er ekki neitt stórkostlegt þá velta menn vöngum yfir því. Þess vegna skiptir líka gríðarlega miklu með hvaða fyrirvara svona gjaldtaka kemur á, hvenær á kjörtímabilinu þetta er hugsað.“

Vankantar komugjalda liggi þegar fyrir

Komugjöld hafi margoft komið til tals áður en þá hafi oft komið á daginn að það sé oft flóknara að koma slíku í framkvæmd en að tala um að ætla að gera það. „Við höfum margoft bent á það að það sé skynsamlegra að horfa til gjaldtöku á ferðamanninn þegar hann er kominn til landsins heldur en á þá þætti sem hafa áhrif á það hvaða áfangastað hann velur sér,“ segir Jóhannes.

Hann hlakki til að ræða þessi mál við nýja ráðherra. Yfirgripsmikil vinna hafi farið fram á árunum 2018 til 2019 þar sem komugjöld hafi einnig verið skoðuð og fyrir liggi ákveðin yfirsýn yfir þá vankanta sem slík gjaldtaka gæti haft í för með sér. Það þurfi að skoða vel.

Það virðist að mati Jóhannesar sem hugmyndir um auðlindagjöld fylgi með einhverjum hætti því sem sé til skoðunar í tengslum við ferðamálaáætlun sem samþykkt var í vor. Það eigi hins vegar betur eftir að koma í ljós hvað ný stjórn sjái fyrir sér.

Geti haft alls konar neikvæð áhrif

„Ég skynja það að það eru ákveðnar spurningar sem hafa vaknað, um það þegar lögð er til víðtæk ný gjaldtaka á greinina, ég held að við getum ekki orðað þetta neitt öðruvísi, þá náttúrlega staldra menn við og velta fyrir sér hvernig það fari saman við yfirlýst markmið ríkisstjórnarinnar um að styðja við aukna verðmætasköpun.

Þetta tvennt fer ekkert endilega alltaf saman, það fer algjörlega eftir útfærslu, fyrirvörum og hvernig hlutirnir eru lagðir upp hvort að þetta hefur áhrif. Það er ákveðin hætta á því að ef þetta er of óljóst að þá haldi fólk að sér höndum í fjárfestingum eða bíði átekta, og það getur haft alls konar neikvæð áhrif. Þannig það skiptir mjög miklu máli að það sé staðið vel að þessu,“ segir Jóhannes.

„Það eru vissulega, eftir daginn í dag, ákveðnar áhyggjur um það að það sé verið að horfa til mikillar nýrrar gjaldtöku af greininni sem að mitt fólk er ekki sérstaklega hrifið af.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×