Enski boltinn

Liverpool liðið ferðast mest yfir jólin

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Það verður bæði leikja- og ferðaálag á  Mohamed Salah og félögum hans í Liverpool yfir hátíðirnar.
Það verður bæði leikja- og ferðaálag á  Mohamed Salah og félögum hans í Liverpool yfir hátíðirnar. Getty/Simon Stacpoole

Það er að venju mikið leikjaálag á ensku úrvalsdeildarliðunum yfir jólahátíðina. Það er aftur á móti misjafnt hvað félögin þurfa að ferðast mikið í leiki sína.

Á meðan flestar fjölskyldur eyða tíma saman og í fjölskylduboðum þá eru leikmenn ensku liðanna á ferð og flugi yfir hátíðirnar.

AllaboutFPL vefurinn hefur reiknað út ferðalög ensku liðanna í vikum sautján til nítján en það eru leikvikurnar þrjár yfir þessi jól og áramót.

Þar kemur í ljós að Liverpool, Newcastle og Bournemouth þurfa að ferðast mest en Fulham, Everton og Arsenal sleppa hins vegar við löng ferðalög.

Liverpool á útileik við Tottenham Hotspur, heimaleik á móti Leicester City og útileik við West Ham United. Liverpool ferðast því tvisvar suður til Lundúna. Alls munu leikmenn Liverpool þurfa að ferðast í 875,1 mílu eða 1408 kílómetra.

Það munar reyndar aðeins 0,1 mílu á ferðalögum Liverpool og ferðalögum Newcastle sem er í öðru sætinu. Það er síðan mun lengra í Bournemouth sem ferðast í 704,4 mílur eða 1133 kílómetra.

Fulham þarf aftur á móti aðeins að ferðast í 4,7 mílur eða 7,6 kílómetra og Arsenal aðeins í 55,8 mílur eða 89,8 kílómetra.

Arsenal átti útileik við Crystal Palace í gær, heimaleik við Ipswich Town og loks útileik við Brentford. Allir leikirnir fara fram í London.

Fulham er enn heppnara því liðið spilar tvo heimaleiki við Southampton og Bournemouth en þriðji leikurinn er síðan útileikur við Chelsea. Stamford Bridge er bara í 7,6 kílómetra fjarlægð og er í rauninni í Fulham hverfinu í London. Leikvangurinn stendur meira að segja við Fulham Road.

@AllaboutFPL



Fleiri fréttir

Sjá meira


×