Sport

Beint af HM á sjúkra­hús vegna sjald­gæfs tauga­sjúk­dóms

Sindri Sverrisson skrifar
Sandro Eric Sosing varð að draga sig úr keppni á HM og eyðir væntanlega jólunum á sjúkrahúsi í London.
Sandro Eric Sosing varð að draga sig úr keppni á HM og eyðir væntanlega jólunum á sjúkrahúsi í London. Getty/Tom Dulat

Sandro Eric Sosing varð óvænt að draga sig úr keppni rétt áður en hann átti að stíga á svið á föstudaginn, á HM í pílukasti. Nú er orðið ljóst hve alvarleg ástæðan var.

Sosing, einn fjögurra Filippseyinga á HM, átti að mæta Ian White á föstudaginn en fór að finna fyrir brjóstverkjum í upphitun fyrir leikinn. Hann varð á endanum að hætta við keppni og var fluttur á sjúkrahús.

Sosing hefur núna verið greindur með Guillain-Barré heilkennið. Á vef Lyfjastofnunnar segir um heilkennið að það sé sjaldgæfur taugasjúkdómur, þar sem ónæmiskerfi líkamans veldur skaða á taugafrumum sem getur valdið verkjum, dofa, slappleika í vöðvum og getur í alvarlegustu tilfellum leitt til lömunar. Það skal tekið fram að flestir ná sér að fullu af þessum sjúkdómi.

„Sandro vill þakka öllum þeim sem hafa spurst fyrir um líðan hans og sent honum hlýjar batakveðjur,“ segir í tilkynningu frá PDC Darts um stöðuna á Sosing.

Eftir að leik Sosing við White var aflýst komst White beint áfram í 2. umferð, þar sem hann vann Ritchie Edhouse. White mun því mæta sjálfum Luke Littler í 3. umferðinni.

Sosing er í 225. sæti heimslistans og komst á HM eftir að hafa endað í 2. sæti á Asíumóti PDC.

Landi Sosing, Paolo Nebrida, tileinkaði honum afar óvæntan sigur sinn gegn Ross Smith í gær. Nebrida er fyrsti Filippseyingurinn sem kemst í 3. umferð HM.

„Þessi sigur er fyrir fjölskylduna mína, landa mína og liðsfélaga Sandro Eric Sosing,“ sagði Nebrida á blaðamannafundi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×