Enski boltinn

Látnir æfa á jóla­dag

Sindri Sverrisson skrifar
Erling Haaland og félagar í Manchester City þurfa að æfa á jóladag eftir erfiða tíma innan vallar.
Erling Haaland og félagar í Manchester City þurfa að æfa á jóladag eftir erfiða tíma innan vallar. Getty/Mike Egerton

Stjörnurnar í Englandsmeistaraliði Manchester City þurfa að mæta til vinnu á jóladag, á fótboltaæfingu, öfugt við það sem þeir eru vanir, eftir skelfilegt gengi liðsins undanfarna tvo mánuði.

City-mönnum virðist hreinlega ekki ætla að takast að rétta gengið af en eftir 2-1 tapið gegn Aston Villa um helgina er liðið komið niður í 7. sæti ensku úrvalsdeildarinnar.

City hefur aðeins unnið einn af síðustu tólf leikjum sínum, ef horft er á allar keppnir, en það var 3-0 sigur á heimavelli gegn Nottingham Forest. Liðið er nú tólf stigum á eftir toppliði Liverpool á Englandi og á einnig á hættu að detta út úr Meistaradeild Evrópu þrátt fyrir að 24 af 36 liðum komist áfram á næsta stig.

Pep Guardiola hefur aldrei þurft að upplifa svona tíma sem knattspyrnustjóri og hann hefur nú ákveðið að láta sína menn mæta til æfinga á jóladag. Þetta staðfesti varnarmaðurinn Kyle Walker í samtali við BBC.

„Við þurfum að æfa á jóladag þetta árið. Síðustu ár höfum við fengið frí á jóladag sem hefur verið mjög notalegt,“ sagði Walker.

City-menn taka á móti Everton í hádeginu á öðrum degi jóla og sækja svo Leicester heim þremur dögum síðar. Fyrsti leikur liðsins á nýju ár verður svo við West Ham 4. janúar. Í janúar er einnig bikarleikur við Salford City og svo síðustu tvær umferðirnar í Meistaradeild Evrópu, þar sem City mætir PSG og Club Brugge, auk deildarleikja við Brentford, Ipswich og Chelsea.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×