Sport

Sagði frá eigin lyfja­mis­notkun og er kominn í bann

Sindri Sverrisson skrifar
Max Purcell og Jordan Thompson unnu tvíliðaleik á Opna bandaríska mótinu í september. Purcell, til vinstri á mynd, er nú kominn í bann.
Max Purcell og Jordan Thompson unnu tvíliðaleik á Opna bandaríska mótinu í september. Purcell, til vinstri á mynd, er nú kominn í bann. Getty/Al Bello

Ástralski tenniskappinn Max Purcell, sem tvívegis hefur unnið risamót í tvíliðaleik, er kominn í ótímabundið bann eftir að hafa sjálfur látið vita af broti á lyfjareglum.

Purcell, sem er 26 ára, vann risamótstitla sína á Wimbledon-mótinu 2022 og á Opna bandaríska mótinu á þessu ári.

Hann segist „óafvitandi“ hafa innbyrt of mikla vítamíngjöf í æð og látið alþjóða heilindatennisskrifstofuna, ITIA, vita en hún sér um að reglum alþjóða lyfjaeftirlitsins, Wada, sé fylgt eftir.

Purcell lét vita um leið og hann fékk niðurstöðu úr læknisrannsókn í síðustu viku.

„Þessar fréttir eru algjört áfall fyrir mig því ég stæri mig af því að vera íþróttamaður sem gætir þess að fara eftir reglum Wada,“ sagði Purcell samkvæmt BBC.

„Ég lagði sjálfur fram upplýsingarnar til ITIA og hef verið með allt uppi á borðum til þess að þessu máli geti lokið sem fyrst,“ sagði Purcell.

ITIA hefur ekki gefið út hve langt bann Purcell verði en það tók gildi 12. desember og má hann ekki spila eða þjálfa tennis, né mæta á tennismót.

Ljóst er að Opna ástralska mótið, þar sem Purcell yrði á heimavelli, er í hættu en það hefst í Melbourne 12. janúar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×