Sport

Orðinn pirraður á að ná ekki að bæta met og tíminn að renna út

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Luke Littler var svona nálægt því að klára níu pílna leik síðast þegar hann steig á svið á heimsmeistaramótinu í pílu.
Luke Littler var svona nálægt því að klára níu pílna leik síðast þegar hann steig á svið á heimsmeistaramótinu í pílu. James Fearn/Getty Images

Luke Littler, ein skærasta stjarna pílukastsins, er orðinn pirraður á því að ná ekki að bæta met sem hann á nú með þeim Michael van Gerwen og Gerwyn Price.

Littler hefur fjórum sinnum á árinu náð níu pílna leik. Aldrei hefur pílukastari náð fimm níu pílna leikjum á einu og sama árinu, en Littler deilir nú þessu meti með Hollendingnum Michael van Gerwen og Walesverjanum Gerwyn Price.

Sjálfur segir Littler að hann sé að verða hálfpirraður á því að ná ekki að bæta metið og nú þegar aðeins sex dagar eru eftir af árinu er tíminn að renna út. 

Littler var hársbreidd frá því að bæta metið er hann vann 3-1 sigur gegn Ryan Meikle í annarri umferð heimsmeistaramótsins í pílukasti síðastliðinn laugardag þar sem hann vann fjórða og síðasta settið 3-0. Í þessu lokasetti var hann með yfir 140 stig að meðaltali í hverjum þremur pílum og kláraði leggina þrjá í ellefu, tíu og ellefu pílum.

Eins og áður segir vinnur tíminn hins vegar ekki með Littler, sem leikur í það mesta tvo leiki í viðbót á árinu 2024. Hann mætir Ian White í þriðju umferð heimsmeistaramótsins næstkomandi laugardag og með sigri tryggir hann sér sæti í fjórðu umferð sem klárast mánudaginn 30. desember.

Littler hefur klárað leggi í níu pílum fjórum sinnum á þessu ári, á Bahrain Darts Masters, Players Championship, Opna belgíska og í úrvalsdeildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×