Innlent

Telja skemmdir í Blá­fjöllum minni­háttar

Jón Ísak Ragnarsson skrifar
Af skíðasvæðinu við Bláfjöll.
Af skíðasvæðinu við Bláfjöll. Vísir/Vilhelm

Minniháttar skemmdir urðu á skíðasvæði Bláfjalla í óveðrinu sem geysað hefur undanfarna daga. Verið er að meta skemmdir og vonast er til þess að hægt verði að opna svæðið eftir helgi.

„[Ástandið] er svosem ágætt, minni snjór en við áttum von á, og oft á vitlausum stöðum eins og gengur og gerist. Það er ekkert mál að laga það svosem,“ segir Einar Bjarnason rekstrarstjóri Bláfjalla.

Minniháttar skemmdir hafi sést á svæðinu, til að mynda á lyftunum.

„Þetta eru grannir vírar og það safnast utan á þetta ísing og þetta slitnar, en aldrei stórmál að laga og ekkert stórt að sjá ennþá allavegana,“ segir hann.

Bjartsýnir á opnun yfir hátíðirnar

Einar segir að þau sem vinni í Bláfjöllum séu mjög bjartsýn að eðlisfari og þau haldi að nú fari að styttast í opnun.

Samkvæmt veðurspá sé morgundagurinn ólíklegur og laugardagurinn líka, en eftir það fari hún að líta betur út.

„Við höldum að þetta gangi niður fljótlega og við getum farið að keyra þetta í gang aftur. Við erum í startholunum og verðum tilbúnir þegar veðrið kemur til að opna,“ segir Einar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×