Fyrrverandi heilbrigðisráðherra skipaði grænbókarnefnd fyrir ári síðan til að fjalla um stöðu málaflokksins. Grænbók ráðuneytisins var birt í samráðsgátt stjórnvalda á dögunum.
Í Grænbók segir að biðlistar eftir ADHD greiningu séu langir þrátt fyrir að algengi lyfjameðferðar sé mun hærra en í samanburðarlöndum. Heilt yfir sé það mat nefndarinnar að gæðum sé ábótavant, bæði þegar kemur að greiningum og lyfjameðferð. Lyfjameðferð sé beitt í of ríkum mæli miðað við núverandi stöðu þekkingar.
Nefndin leggur til að viðmið fyrir lyfjagjöf verði skýrð betur til að tryggja að lyf séu aðeins notuð þegar þau eru nauðsynleg.
Vilhjálmur Hjálmarsson, formaður ADHD samtakanna var inntur eftir viðbrögðum við Grænbókinni.
„Þetta mun valda mikilli ólgu því það fyrsta sem fólk les út úr þessu og úr fréttum er að það eigi hreinlega að draga úr lyfjameðferð, draga úr greiningum, mér liggur við að segja að það eigi að fara að afgreina fólk. Það er ýmislegt í þessu sem þarf að skoða, þetta er 80 blaðsíðna plagg. Eflaust þarf að skoða eitthvað, hvort þetta hafi verið gert nógu vel alls staðar. Hvar er þá eftirlitið?“
„Við ættum kannski að spyrja fyrrverandi landlæknir og núverandi heilbrigðisráðherra Ölmu Möller, ætli það sé ekki þar sem eftirlitið ætti að vera en mér finnst líka skrítið að menn tali svona hátt um að draga úr lyfjameðferð og svo talar maður við erlenda lækna og þeir segja bara hreint út, ef lyfjameðferð er það sem gerir langmest gagn, af hverju eigum við þá að bíða með það?“
Vilhjálmur kallar eftir því að nýjar tölur séu notaðar þegar samanburður á lyfjanotkun er gerður.
„Það er alltaf verið að vísa í einhverjar tölur sem eru eldgamlar þegar verið er að tala um nágrannalöndin, menn verða bara að gera vinnuna sína betur.“
Vilhjálmur telur að það muni valda fólki sem er á biðlista eftir greiningu miklu hugarangri að svona mikill þungi sé í umfjöllun um að draga úr lyfjanotkun í skýrslunni.
„Vonleysi, kvíði, þunglyndi, jafnvel dauðsföll. Þetta er alveg hrikaleg staða bæði fyrir fullorðna og fyrir börn, að það skuli taka tvö ár eða meira að koma barni í greiningu og meðferð. Það er bara bilun. Og fyrir fullorðna sem eru verst staddir, yfir tíu ár.“