Enski boltinn

Fyrrum lands­liðsþjálfarinn að­laður af konungi

Smári Jökull Jónsson skrifar
Sir Gareth Southgate eftir tapið gegn Spáni í úrslitaleik Evrópumótsins í Þýskalandi.
Sir Gareth Southgate eftir tapið gegn Spáni í úrslitaleik Evrópumótsins í Þýskalandi. Vísir/Getty

Gareth Southgate fyrrum þjálfari enska landsliðsins í knattspyrnu getur nú kallað sig Sir Gareth Southgate eftir að hafa verið á meðal þeirra Breta sem aðlaðir voru af Karli konungi nú um áramótin.

Gareth Southgate sagði upp störfum sem landsliðsþjálfari Englands að loknu Evrópumótinu í sumar en hann stýrði enska liðinu þá alla leið í úrslitaleik þar sem liðið tapaði gegn Spánverjum.

Southgate tók við enska landsliðinu haustið 2016 af Sam Allardyce sem var ráðinn til tveggja ára eftir að Roy Hodgson var látinn fara fyrr um sumarið þegar England féll úr leik í 16-liða úrslitum EM gegn Íslandi.

Stóri Sam sagði hins vegar af sér eftir aðeins 67 daga í starfi og Southgate var kallaður til eftir að hafa náð góðum árangri með u21 árs landsliðið.

Southgate gerði góða hluti með enska liðið. Liðið lenti í 4. sæti á heimsmeistaramótinu í Rússlandi árið 2018 og vann silfur á EM árið 2020 eftir tap gegn Ítalíu í úrslitaleik. England féll úr leik í 8-liða úrslitum á HM í Katar og vann aftur silfur á Evrópumótinu í Þýskalandi í sumar.

Southgate er fjórði enski landsliðsþjálfarinn sem er aðlaður en Walter Winterbottom, Alf Ramsey og Bobby Robson hafa allir hlotið þann heiður fyrir störf sín.

„Hann færði stuðningsmenn okkar nær liðinu en nokkurn tíman áður, stóð fyrir það sem hann trúir á og gerði leikmenn stolta sem fulltrúa Englands,“ sagði Debbie Hewitt stjórnarmaður enska knattspyrnusambandsins þegar tilkynnt var um útnefningu Southgate.

„Það hefur verið sannur heiður að kynnast manninum og knattspyrnustjóranum. Við öll sem höfum upplifað hugulsemi hans, einbeitingu og leiðtogahæfni erum í skýjunum vegna þessara frétta.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×