Sport

Karlarnir fengu pening en konurnar sjampó, sápu og hand­klæði

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Selina Freitag vann keppnina en baðherbergið hennar græddi á því en ekki bankareikningurinn.
Selina Freitag vann keppnina en baðherbergið hennar græddi á því en ekki bankareikningurinn. Getty/Dominik Berchtold

Í mörgum íþróttagreinum er því miður enn mjög mikill munur á verðlaunafé hjá körlum og konum. Skíðastökkskeppni í Þýskalandi hefur hins vegar hneykslað marga með verðlaunum sínum eftir mót.

Hin þýska Selina Freitag vann undankeppni fyrir skíðastökkskeppni í Garmisch-Partenkirchen í Þýskalandi á dögunum og fékk að launum vörur fyrir baðherbergið. Sama var ekki upp á teningum eftir samskonar keppni hjá körlunum.

Freitag fékk fyrir sigur sinn sjampó, sápu og handklæði að launum en engan pening.

Daginn eftir vann Austurríkismaðurinn Jan Hörl sömu keppni hjá körlunum. Hann fékk 3200 evrur í verðlaunafé eða meira en 462 þúsund íslenskar krónur.

Norska ríkisútvarpið fjallar um málið en það var þýska blaðið Bild sem vakti fyrst athygli á þessum mismunum.

„Svona á hvergi heima og mér finnst þetta verða ógeðslegt. Það er eiginlega betra að þeir úthluti engum verðlaunum í stað þess að gera þetta því þetta er mun verra,“ sagði Jan-Erik Aalbu íþróttastjóri skíðastökksambandsins, við NRK .

„Ég vil ekki kvarta of mikið yfir þessu en þið sjáið greinilega muninn,“ sagði Selina Freitag við ARD sjónvarpsstöðina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×