Handbolti

Tvö­falt sjokk fyrir Al­freð

Sindri Sverrisson skrifar
Alfreð Gíslason og hans aðstoðarmenn þurfa eflaust eitthvað að breyta til eftir að tveir leikmenn duttu út úr þýska hópnum.
Alfreð Gíslason og hans aðstoðarmenn þurfa eflaust eitthvað að breyta til eftir að tveir leikmenn duttu út úr þýska hópnum. Getty/Marco Wolf

Alfreð Gíslason þarf að spjara sig á HM án tveggja leikmanna sem voru í þýska landsliðshópnum hans og unnu silfur á Ólympíuleikunum í París síðasta sumar.

Þýskir miðlar greina frá þessu í dag og tala um sjokk fyrir Alfreð, en vinstri skyttan Sebastian Heymann og línumaðurinn Jannik Kohlbacher hafa neyðst til að draga sig úr hópnum hans vegna meiðsla.

Þeir bætast á lista með sterkum leikmönnum sem missa af HM vegna meiðsla, en á þeim lista eru einnig menn eins og Dika Mem, Ómar Ingi Magnússon og Félix Claar.

Báðir eru Þjóðverjarnir leikmenn Rhein-Neckar Löwen og missir Heymann af því sem átti að verða hans fyrsta heimsmeistaramót, eftir að hafa meiðst í fæti í leik við Flensburg um miðjan desember, en Kohlbacher þarf að gangast undir aðgerð vegna meiðsla í olnboga.

Í þeirra stað hefur Alfreð kallað á Tim Zechel úr Magdeburg og Lukas Stutzke úr Hannover-Burgdorf.

Spila við Brasilíu þegar Ísland mætir Svíþjóð

Íslenska landsliðið kom saman til æfinga í Víkinni í dag en þýski landsliðshópurinn kemur saman til æfinga í Hamburg á morgun.

Þjóðverjar spila svo vináttulandsleiki 9. og 11. janúar, við Brasilíumenn, sömu daga og Ísland spilar við Svíþjóð.

Á HM eru Þjóðverjar í Evrópuriðli með Póllandi, Sviss og Tékklandi, og spila þeir í Herning í Danmörku. Efstu þrjú liðin spila svo í millriðli með þremur liðum úr B-riðli (Danmörk, Ítalía, Alsír, Túnis), einnig í Herning.

Ljóst er að Ísland og Þýskaland geta ekki mæst á HM nema að bæði lið komist í úrslitaleikinn eða leikinn um 3. sætið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×