Innlent

Með Loga þegar hann skreið inn á þing og núna í ráðu­neytinu

Eiður Þór Árnason skrifar
Tómas Guðjónsson hefur verið náinn samstarfsmaður Loga Einarssonar og fylgir honum inn í ráðuneytið.
Tómas Guðjónsson hefur verið náinn samstarfsmaður Loga Einarssonar og fylgir honum inn í ráðuneytið. Samfylkingin

Tómas Guðjónsson, fráfarandi framkvæmdastjóri þingflokks Samfylkingarinnar mun vera aðstoðarmaður Loga Einarssonar, nýs menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðherra.

Tómas hefur starfað lengi með Samfylkingunni og þá meðal annars sem upplýsingafulltrúi þingflokksins.

„Tómas er búinn að fylgja mér lengi. Hann var kosningastjórinn minn 2016 þegar ég skreið inn á þing þannig að ég hlakka til að hafa hann með,“ segir Logi í samtali við fréttastofu. Kynni þeirra nái aftur til þess þegar Logi hóf þátttöku í landsmálum.

Bróðir aðstoðarmanns í síðustu ríkisstjórn

Tómas Guðjónsson er stjórnmálafræðingur að mennt og er í sambúð með Katrínu Ástu Jóhannsdóttur. Saman eiga þau soninn Matthías Pál Tómasson. Tómas er bróðir Konráðs Guðjónssonar sem aðstoðaði Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur, fyrrverandi utanríkisráðherra.

Logi segir að fyrstu dagarnir í ráðuneytinu hafi farið í reyna að fá yfirsýn yfir verkefnin og átta sig betur á hlutunum. „Þetta eru nokkrir ólíkir angar sem eru kannski að sama stofni en þarf að sinna hver með sínum hætti,“ bætir hann við um þá málaflokka sem hann mun hafa yfirumsjón með sem ráðherra menningar-, nýsköpunar- og háskólamála.

Ráðherrum ríkisstjórna er heimilt að ráða til sín tvo aðstoðarmenn. Logi segist gera sér grein fyrir þeim möguleika en vilji kynna sér ráðuneytið betur áður en hann tekur ákvörðun um ráðningu annars aðstoðarmanns.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×