Sport

Van Gerwen í úr­slit í sjöunda sinn

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Kominn í úrslit.
Kominn í úrslit. James Fearn/Getty Images

Hollendingurinn Michael Van Gerwen er kominn í úrslit á heimsmeistaramótinu í pílukasti í sjöunda sinn. Hann stefnir á að vinna heimsmeistaratitilinn í fjórða sinn á morgun, föstudag.

Van Gerwen lagði Chris Dobey 6-1 í undanúrslitum þrátt fyrir að vera ekki upp á sitt besta. Hann var hins vegar klínískur þegar þess þurfti og spilaði best þegar mest á reyndi.

„Ég get verið ánægður með frammistöðuna. Ég var ekki að spila af jafn miklum krafti og í síðasta leik en ég skilvirkur. Þegar ég þurfti að gera hluti gerði ég þá á réttum augnablikum og það er það sem maður þarf að gera ætli maður sér alla leið,“ sagði sigurreifur Van Gerwen eftir leik.

Hollendingurinn segist með markmið, og það er að fara alla leið sama hvað gengur á.

„Við erum ekki enn nálægt (endamarkmiðinu). Á morgun er annar dagur og titillinn er enn langt í burtu. Það er það sem maður þarf að segja sér því ég vil ekki gera mistök. Ég vil halda áfram að berjast með öllu sem ég á.“

„Ég elska það sem ég geri. Ég elska að sýna hvað í mér býr á þessu sviði. Það er ástríða mín, þetta er líf mitt – á eftir fjölskyldu minni. Ég nýt þess í botn,“ sagði Van Gerwen að lokum.

Síðar í kvöld kemur í ljós hvort Luke Littler eða Stephen Bunting mæti Van Gerwen í úrslitum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×